Bókin 5:2 Mataræðið eftir Dr. Michael Mosley fjallar um lífsstíl sem snýst um að fasta tvo daga vikunnar og borða eðlilega í fimm daga. Michael er læknir en hefur unnið í mörg ár við að gera vísinda- og heilsuþætti fyrir BBC.
Bókin skiptist í þrjá kafla þar sem í fyrsta kaflanum er fjallað um ýmis vísindi er snúa að föstum. Í öðrum kaflanum er fjallað um lotuföstu í framkvæmd og hvernig hægt er að taka ýmsar útgáfur. Í síðasta kaflanum eru matseðlar, reynslusögur og fleira.
Í vísindakaflanum er fjallað um ýmislegt er snýr að líkamanum og lögð mikil áhersla á að þessi fræði eru enn það ung að ekki er hægt að fullyrða neitt um hvernig fösturnar virka til langframa. Í framkvæmdakaflanum prufar Michael ýmsar samsetningar á föstu og kemst að þeirri niðurstöðu að 5:2 henti sér best því það er auðveldast að hafa stjórn á þeim dögum.
Hann bendir einnig á að það er ekki til neins að nota þessa aðferð sem megrunarkúr því um leið og hann hætti þá söfnuðust kílóin á hann aftur. Ef fólk velur þessa aðferð þá er það að velja sér lífsstíl.
Þetta er ágætis bók með fullt af skemmtilegum upplýsingum um innihald matvæla og sérstök áhersla lögð á sykurstuðul og sykurálag sem ég hafði aldrei heyrt um áður en ég las þessa bók. Það er einnig lögð áhersla á að fastan er ekki þannig að ekki eigi að borða neitt.
Á þessum dögum eiga karlmenn að borða 600 kaloríur og konur 500. Þetta er mjög mikilvægt því það verður að vera einhver næring til staðar og þetta mun vera lágmarksnæring. Gæta verður þess að gera þetta ekki í marga daga heldur eingöngu þessa tvo föstudaga . Aftast í bókinni eru síðan matseðlar með hugmyndum að því hvað hægt er að borða á þessum dögum. Þetta virðist vera sæmilega fjölbreytt og ég ímynda mér að það sé mjög gott að hafa þessa matseðla að styðjast við, sérstaklega til að byrja með þannig að þessir dagar verði ekki mjög einhæfir.
Ég gef henni 3,5 stjörnur og ég er sérstaklega ánægð með hvernig hann setur hitaeiningatölurnar við alla réttina og allt sem í þeim eru. Pirrar mig hinsvegar að það eru engar myndir, mér finnst svo leiðinlegt að lesa uppskriftir og matseðla án mynda.
Hitaeiningataflan aftast í bókinni finnst mér vera flott. Alltaf gott að hafa svona töflu til að fletta upp.
[usr 3.5]Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.