30 DAGAR – LEIÐIN TIL BETRI LÍFSTÍLS er nýútkomin bók eftir Davíð Kristinsson en hann hefur starfað sem einkaþjálfari í 15 ár.
Bókin hefst á upplýsingum um það hvers vegna hreint mataræði er góður kostur. Því næst er farið yfir það hvernig fólk geti skoðað sjálft sig og í framhaldi af því gert breytingar ef á þarf að halda. Það er góður kafli með girnilegum uppskriftum og ráðleggingum hvernig hægt er að skipuleggja þessa 30 daga en eftir uppskriftakaflann er fullt af æfingum sem flestar er hægt að gera heima. Góðar teygjur með myndum af hverri æfingu. Mjög flott.
Girnilegar og flottar uppskriftir
Uppskriftirnar eru mjög girnilegar og myndirnar flottar. Það sem mér finnst best er að það er ekki yfirgnæfandi magn af fiskuppskriftum. Skil ekki allar þessar uppskriftabækur sem eiga að snúa að breyttu líferni og það er fiskur í annað hvert mál. Hér eru fiskuppskriftir en þær eru ekki í yfirgnæfandi meirihluta. Nautakjötsréttirnir eru mjög girnilegir og mér finnst skemmtilegt að sjá þarna rétti með folaldakjöti og lambahjörtu og svo er meira að segja uppskrift af sushi. Gott fyrir fólk eins og mig sem fæ aldrei nýjar hugmyndir en þarf að sjá allt svona á blaði.
Einnig fannst mér allir þessir drykkir alveg frábærir því ég er svo hugmyndasnauð að ég hef aldrei hugmynd um hvað eigi að vera í einum svona orkudrykk. Þarna er græna bomban og appelsínusmoothie, bananasmothie og margt fleira. Drykkir fyrir allflesta myndi ég halda.
En mér líkar ekki allt í bókinni. Ég t.d. skil ekki allar uppskriftirnar. Hvað er límóna? Er það sítróna eða er það lime? Og hvað er kakónibba? En þetta er nú bara smá tuð og ekkert til að missa sig yfir. Þetta er ekki LKL mataræði en þetta er ekki mjög langt frá því. Meginuppistaðan í mörgum réttunum virðist vera sú sama. Munurinn sýnist mér helst vera að í LKL er áhersla á fitu samhliða lítilli kolvetnainntöku en hér er borðað td. rótargrænmeti og eitthvað af ávöxtum og hrísgrjónum. Ég gæti alveg trúað að þetta gæti hentað vel fyrir þá sem vilja ekki fara alla leið í LKL en kjósa að fara einhvern milliveg.
Mér finnst þetta flott bók, full af litum og glaðlegum mat. Matarmyndirnar eru flottar og upplýsingarnar virðast vel framsettar. Æfingarnar finnst mér svo allveg punkturinn yfir i-ið, gjörsamlega klára bókina flott finnst mér.
Ég ætla að gefa henni fjórar og hálfa stjörnu því hún er svo litrík og fjölbreytileg og fullt af fínum fróðleik.
[usr 4.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.