Undirgefni eftir franska höfundinn Michel Houellebecq er bók sem hefur hlotið mikið umtal og sitt sýnist hverjum.
Ég verð að viðurkenna að ég hef átt í miklum erfiðleikum við að koma einhverju frá mér varðandi þessa bók.
Í lýsingum er sagt að þetta sé bók sem skipti verulegu máli í, grátbrosleg og ögrandi. Ég get alveg tekið undir þetta. Hún er virkilega ögrandi en ég verð að viðurkenna að stundum leið mér hálfilla yfir lestrinum og ég tók mér góðan tíma að lesa.
Honum finnst annað fólk leiðinlegt. Konur sem eru eldri en fertugar eru ekki kynverur, þær eru bara samstarfsfólk og það kemur honum á óvart að finna að ein slík á sér líf utan skólans.
Einfari sem skiptir ört um ungar kærustur
Bókin fjallar um Francois háskólakennara á fimmtugsaldri. Hann lifir frekar einangruðu lífi, á litla íbúð, kennir í háskólanum og á unga kærustu sem hann skiptir reglulega um. Yfirleitt koma þær úr hópi nemenda hans enda fer hann ekki mikið meðal fólks. Í kosningunum 2022 sigrar Múhameð Ben Abbas formaður bræðralags múslima og verður þar með fyrsti forseti Frakklands af múslimatrú. Þar með tekur allt miklum breytingum.
Francois er einfari sem tengist ekki öðrum. Hann á fáa eða enga vini, nokkra kunningja að vísu en hann veit ekki mikið um þá eða þeir um hann. Samband hans við foreldra sína er ekkert og lát þeirra kemur honum lítið við annað en það er smá vesen að þurfa að hitta seinni eiginkonu föðurins.
Sjálfhverfur og haldinn kvenfyrirlitningu
Líf Francois virðist umhverfast um hann sjálfan og fáir komast inn fyrir skelina. Stúlkurnar sem hann velur sem hjásvæfur eru t.d. nær eingöngu hjásvæfur þar sem hann virðist eiga erfitt með að mynda tilfinningasamband við nokkra mannveru.
Honum finnst annað fólk leiðinlegt. Konur sem eru eldri en fertugar eru ekki kynverur, þær eru bara samstarfsfólk og það kemur honum á óvart að finna að ein slík á sér líf utan skólans.
Höfundur leikur sér með ýmislegt sem talið er að einkenni Islam og afbakar það eða teygir svo það skekur heimsmyndina sem við þekkjum. Gömlu skarfarnir í háskólanum sjá sér leik á borði að skipta um trú því þá geta þeir fundið sér eiginkonu, unga og kannski fleiri en eina. Trúin sem slík virðist vera algjört aukaatriði.
Niðurstaða: Full af stuðandi hugmyndum
Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þessa bók. Hún er ekki leiðinleg en hún er heldur ekki skemmtileg. Ég gat glott út í annað en mestmegnis fannst mér hugmyndirnar stuðandi. Þessir gömlu karlar og ungu stúlkurnar sem voru á barnsaldri, enn með símana sína flissandi sín á milli.
Gert er grín að heimsmynd okkar og hvernig við lifum í okkar kúlu, kaupum góðan mat og viljum ekki láta neitt trufla okkur frá þeirri tilveru sem við höfum valið okkur. Síðan gerist eitthvað sem skekur þessa heimsmynd og þá eru það viðbrögðin við henni. Það er í rauninni ekki rætt um viðbrögð kvenna, einungis karla sem sjá sér þarna ákveðinn leik á borði.
Ég hef aldrei lesið neitt eftir þennan höfund en hann er þekktur rithöfundur og þekktur fyrir skoðanir sínar á íslam þar sem hann hefur látið hafa eftir sér að íslam séu heimskulegustu trúarbrögðin.
Þessi bók var t.d. á forsíðu Charlie Hebdo daginn sem hryðjuverkaárásin var gerð á Charlie Hebdo og Michel Houellebecq var undir lögreglueftirliti af ótta um að hann væri á lista hryðjuverkamanna. Nafn hans tengdist þessum árásum og meðal annars var haft eftir franska forsætisráðherranum
„France is not Houellebecq. It’s not intolerance, hatred and fear.” Þegar bókin er sett í þetta samhengi verður hún aðeins skiljanlegri en mér geðjast samt ekkert betur að henni, hún truflaði mig og mína heimsmynd.
Þrjár og hálf stjarna, ég fer ekki hærra sama hvað hver segir. Þrjár og hálf [usr 3.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.