Anne B. Radge er einn vinsælasti höfundur Noregs og nokkrar bóka hennar hafa áður verið þýddar á íslensku, þar á meðal Ég skal gera þig svo hamingjusaman, en ritdóm um hana má finna hér meðal hér
Ég á teppi í þúsund litum fjallar um Birte móður Anne.
Þegar sagan hefst er Birte mikið veik og á stutt eftir. Meðan Anne hjúkrar móður sinni á þessum síðustu vikum hennar rifjar hún upp uppvaxtarár sín í Þrándheimi en móðir hennar ól hana og systur hennar ein upp.
Þetta er saga konu sem átti erfiða ævi. Það er gefið í skyn að móðir hennar (amma Anne) hafi verið skelfileg kona og hún hafi verið þeirri stundu fegnust er hún dó.
Gleymir sér í draumaheimi bóka
Birte er dönsk en lifir sína fullorðinsævi í Þrándheimi í Noregi og síðar Osló. Hún berst í bökkum en dætur hennar finna ekki að þær séu á neinn hátt fátækari en aðrir. Þegar þær eru fluttar að heiman ákveður hún að flytja til Osló þar sem hún býr við ömurlegar aðstæður en reynir að sýna dætrum sínum allt aðra hlið.
Hún elskar að lesa og gleymir sér í draumaheimi bóka, er yfir sig stolt af rithöfundinum dóttur sinni en kann ekki margar leiðir til að sýna það. Hún eldar stórkostlegan mat og kann þá list að gera flottan mat úr nær engu hráefni en hún kann ekki að faðma eða láta vel að fólki. Þegar eitthvað bjátar á, fer hún að elda og snarar fram matarveislu. Það er hennar leið til að tjá tilfinningar sínar.
Síðustu mánuðina er hún á hjúkrunarheimili og fær litla sem enga umönnun þar sem hjúkrunarheimilið er undirmannað og peningalítið. Dætur hennar gera sitt besta skiptast á um að sitja hjá henni en hún óttast það mest að deyja ein.
Ég fékk margoft tár í augun við lesturinn, kannski vegna þess að nú er ég orðin það gömul að mínir foreldrar eru komnir á sín efri ár og ef maður mátar sig í spor þeirra mæðgna þá er ekki erfitt að tárast og fá kökk í hálsinn — en um leið er bókin full af hljóðlátri kímni.
Það er ekki hægt annað en dást að konunni sem vinnur kvöldvaktir í hávaðasamri verksmiðju til að dætur hennar komist til manns en þráir um leið frelsi til að ferðast og geta sest niður með bókina og gleyma sér.
Hún þekkir fólkið á bókasöfnunum og bókabúðunum og hún tekur að sér fólk sem henni finnst einmana og gefur því að borða. Þetta er ótrúleg saga af ótrúlegri konu!
Því miður held ég að veruleikinn sem þarna kemur fram varðandi hjúkrunarheimili hinna öldruðu sé ekki mikið öðru vísi hér á landi. Birte deyr árið 2012 og mér fannst að sumt sem þarna er lýst gæti gerst hjá okkur hér á Íslandi, það þarf alla vega ekki mikið ímyndunarafl til að sjá þann veruleika ef maður fylgist með baráttumálum aldraðra hér á landi.
Þessi bók er alveg vel þess virði að lesa. Þetta er ekki spennusaga, heldur mannleg saga um sorgir og gleði. Sagan um teppið í mörgu litunum snerti hjarta mitt og ég hugsa að ég komi mér upp svona teppi. Fjórar stjörnur.
[usr 4.0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.