Hér eru góðu fréttir dagsins.
„Hjá okkur eru hátt í 40 börn sem eiga foreldra á forgangslista. Það merkir að ef við lokum leikskólanum þá kæmust hjúkrunarfræðingar og fleiri sem gæta að lífi og öryggi almennings ekki í vinnu,“ segir Elliði Vignisson bæjarstóri Ölfushrepps í viðtali við Hafnarfréttir, en hann tók sig til og skúraði sjálfur leikskólann í gær. Elliði er verulega ósáttur við verkfall Eflingar sem hann telur að hefði mátt bíða betri tíma.
Hann segir þjónusta við börn sé jafnvel enn mikilvægari en áður og að á það hafi barnageðlæknar og sálfræðingar bent. „Okkar fagfólk á leikskólanum þekkir sama veruleika. Ég hef reyndar einnig gengið í þrif í ráðhúsinu enda okkur uppálagt af sóttvarnalækni að huga að öryggi okkar starfsmanna,“ segir hann.
Hann gefur líka leikskólastjóranum mikið kredit en hann segir að hún hafi lyft grettistaki í að halda skólanum opnum. „Framlag mitt kemst ekki í hálfkvist við hennar. Nú spáir enginn í starfslýsingu eða hvað klukkan er. Við stöndum öll saman á þessum erfiðu tímum, við erum öll almannavarnir.“
Eins og fyrr segir er Elliði ekki sáttur við tímasetningu verkfallsins: „Ég veit ekki hvort að Sólveig Anna gerir sér grein fyrir því að COVID veiran er ekki einhver PR brella. Þetta er dauðans alvara í orðanna fyllstu merkingu. Allt, eða réttara sagt næstum því allt, samfélagið stendur nú saman í baráttunni við þennan vágest,“ segir þessi framtakssami bæjarstjóri að lokum.
(Myndin af Elliða er fengið að láni af vef Hafnarfrétta)
Svo er það bensínverðið:
Á vef FÍB er sagt frá því að bensínverð hafi aldrei áður verið svona lágt en sem áður eru Costco til fyrirmyndar í þeim efnum og hafa lækkað líterinn niður í 180 krónur í takt við heimsmarkaðsverð sem hefur ekki lækkað svona mikið í 18 ár. Betur má þó ef duga skal því alltaf skal íslendingurinn vera gráðugri en aðrir. Á vefnum segir:
„Vegna tregðu flestra söluaðila á Íslandi vantar verulega upp á að eldsneytislækkunin skili sér eðlilega til eytenda. Til viðmiðunar þá hefur bensínlítrinn í Danmörku lækkað að meðaltali um 1,40 danskar krónur í mars. Umreiknað gerir þetta um 27 íslenskar krónur, miðað við meðalgengi dönsku krónunnar í mars. Meðalálagning íslensku olíufélaganna á hvern bensínlítra í mars er 10 krónum yfir álagningunni í febrúar.
Minni verðlækkun en efni standa til hefur áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja. Það er ekki stórmannlegt af íslensku olíufélögunum að auka álagningu á tímum heimsfaraldurs.
Frændur okkar á Norðurlöndunum og víðast í heiminum njóta mun meiri verðlækkunar en íslenskir neytendur. Ljósið í myrkrinu er snörp verðlækkun Costco í gær og fyrr í dag. Costco mun væntanlega hafa áhrif á samkeppnisaðilana.
Allir í Costco!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.