Fyrir algera tilviljun datt ég nýlega inn á kaffiteríuna MARENGS á Listasafni Íslands. Þar tók á móti mér fegurðin og gæskan ein. Hrein listaverk fyrir öll skynfærin.
Það fyrsta sem fangaði augað voru skærgulir túlípanar sem hafði verið plantað niður innanhúss! Það næsta var gamla mávastellið eins og amma átti sem þarna prýddi hillurnar…og svo.. og svo meira og meira fallegt: Marengstertur, perur, kiwiávextir, sítrónur, jarðaber, bláber og rjómi.
Geislandi falleg kona tók á móti okkur vinkonunum þegar við litum þarna við á laugardaginn.. og þvílíkt stuð. Áður en langt um leið hafði hún skellt í orkudrykki fyrir okkur. Henti gúrku í safavélina og gaf okkur skot, sagði gúrku vera allra meina bót og þvílíkt grennandi ! Við vorum komnar á bragðið…allar í huganum farnar að gæla við að kaupa safapressu. Því næst blandaði fallega Babetta annan drykk handa okkur en uppistaðan í honum var melóna með berkinum öllum, sítróna og engifer.
Mikið var þetta dýrlegt, borið fram í glasi á fæti og með kivisneið með áföstu óskakerti. Já, Babetta sagði að nú væri óskastundin runninn upp – við skyldum óska okkur stórt og bíða þess svo að óskin rættist. Himneskt fyrir mér.
Á stól við barinn sat Steinunn, fastagestur sem stóð allt í einu upp og teygði buxurnar út í loftið, sýndi svo ekki varð um villst að hún hafði misst eina ef ekki tvær buxnastærðir frá því að hún byrjaði að drekka safana á MARENGS og án þess að breyta nokkru í sínu venjulega mataræði !
Veislan hélt áfram og Babetta galdraði fram hvern réttinn á fætur öðrum fyrir okkur vinkonurnar. Fyrst var það sérstakt íslenskt fjallate, Mói sem kitlaði hálsana. Því næst falleg pera umvafin salatblöðum og ostsneið ásamt vítamínperlum í formi hneta. Svo kom ljúffeng súpa með heilmiklu hvítvíni, heimalagað brauð með geggjuðu paté og að endingu hamingja með rjóma – sem var auðvitað dulbúin marengsterta á þremur hæðum með rjóma, súkkulaði og appelsínuskífu.
Ef þér þykir vænt um einhvern, leiddu hann þá til hamingjuheima MARENGS. Ljúft ævintýri og óskir sem rætast í alvörunni. Ég mæli hiklaust með öllu á matseðlinum.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.