Ef þú ert á leiðinni í bústaðinn um helgina, á leið í flug eða ert að bíða eftir lækninum þá er Lýtalaus bókin til að taka með.
Þó svo að Lýtalaus flokkist kannski ekki sem stórbókmenntir þá finnst mér gaman að lesa bækur sem gerast í þeim samtíma sem maður lifir í núna. Mér finnst gaman að því að þekkja umhverfið, hugsunarganginn og taktana hjá fólkinu sem verið er að fjalla um í bókunum.
Bókin Lýtalaus fjallar um Lilju Sigurðardóttur, einhleypa unga konu sem leitar að ástinni, langar að grenna sig, gleymir sér stundum þegar hún fær sér í glas, vill hafa fjör og stuð í kringum sig og reynir að fóta sig andlega í lífinu.
Lýtalaus er auð- og fljótlesin bók en ég var í rúma átta tíma að lesa hana. Ég tísti yfir mörgum setningum, fannst hún vera ansi dónaleg á köflum, ég varð glöð og líka sorgmædd en þegar upp var staðið hafði ég gaman að henni.
Bókin byrjar hratt og örugglega og er ekki með mikið af lýsingarorðum en þannig bækur finnst mér svo gott að lesa þegar ég þarf aðeins að flýja raunveruleikann.
Mér finnst bókin mörgum tilvikum ná að lýsa raunverulegum hugsunum, þó svo að ég geti ekki alveg samsamað mig við allar persónurnar. Höfundurinn nær þó að hitta naglann ansi oft á höfuðið þegar aðalpersónan er í “fitukomplexaástandinu” sínu og kinkaði ég oft kolli þegar ég var að lesa bókina.
Mig langar að lesa meira um líf Lilju en vonandi fáum við að heyra meira af henni á næstu misserum. Kannski sjáum við hana Lilju einhvern daginn í föstu sambandi og með barn undir belti ?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.