Ein af skemmtilegri bókum í jólabókaflóði ársins er bókin Ást, Heilsa og Uppeldi eftir hinn geðþekka stjörnuspeking Gunnlaug Guðmundsson.
Í bókinni leitast Gunnlaugur við að skoða hvernig persónuleika börnin þín hafa að geyma og góð ráð varðandi stjörnumerkin og uppeldi, hann skoðar tengsl á milli stjörnumerkjanna og heilsufars og síðast en ekki síst… hvernig pörin passa saman sé tekið tillit til stjörnukortanna þeirra. Endalaust skemmtilegar pælingar.
Pjattrófurnar, sem flestar hafa gaman af stjörnuspekipælingum, sendu nokkrar hugmyndir til Gunnlaugs og báðu hann að skoða til dæmis hvernig Cal og Anna Mjöll fara saman (þrátt fyrir aldursmuninn), hvað það er sem dregur Nínu Dögg og Gísla að hvort öðru og hvers vegna forsetahjónin eru svona sæt og skemmtileg þrátt fyrir að virðast gjörólíkar týpur saman.
Hér eru svörin og svo getur þú skoðað þig og þinn eða þann sem þú hefur augastað á í nýju bókinni.
Nína Dögg Filippusdóttir (25.02.1974) og Gísli Örn Garðarsson (15.12.1973)
Samband Nínu Daggar og Gísla Arnar er ævintýrasamband, byggir á sameiginlegum áhuga á listum, athafnasemi og spennufíkn. Þrátt fyrir ‘draumóra’ og eldmóð þá eru þau eigi að síður jarðbundin, skynsöm og harðdugleg. Þau eiga vel saman, en sambandið verður aldrei stöðugt, sífellt er verið að brjóta niður form og leita nýrra leiða til að þenja út lendur sköpunarinnar. Gísli Örn er Bogmaður og þekkingarferðalangur. Nína Dögg er landamæralaus Fiskur.
Það er athyglisvert að önnur fræg hjón í leikhús, lista- og athafnageiranum eru einnig Bogmaður og Fiskur, þau Lilja Pálmadóttir og Baltasar Kormákur. Þegar grannt er skoðað þá er lífsstíll þessa fólks ekki ólíkur, stöðugur þeytingur á milli landa og margs konar verkefna.
Anna Mjöll Ólafsdóttir (07.01.1970) og Cal Worthington (27.11.1920)
Samband þeirra gæti virst með ólíkindum svona við fyrstu sýn og auðvelt að afgreiða það: “Auðvitað, gæinn er forríkur.” Og það er rétt, en Cal sem er Bogmaður með Tungl í Tvíbura er algjört sjarmatröll, jákvæður, hress, líflegur og skemmtilegur. Það er rafmagn í kringum hann. Hann er því aldurslaus, svona sálarlega séð. Anna Mjöll er dásamlega yndæl kona, geðgóð og jafnlynd. Hún er jarðbundin og í alla staði pottþétt Steingeit. Anna Mjöll og Cal eru ólík að upplagi en bæta hvort annað.
Ólafur Ragnar Grímsson (14.05.1943) og Dorrit Moussaieff (12.01.1950)
Mesta gæfan í lífi Ólafs Ragnars er að hann laðar að sér fallegar konur. Án þeirra væri hann framkvæmdastjóri iðntækistofnunar alþjóðasjóðsins. Fyrst var það Ljónið Guðrún Katrín og nú er það Steingeitin Dorritt, sem er skemmtileg kona. Klassísk og fáguð, en samt frumleg, á kafi í þotulífi en samt samúðarfull og mannleg, yfirveguð en samt létt og óþekk. Og Ólafur stendur hjá og brosir. Augljóst er að þau eiga vel saman enda á ferðinni tvö jarðarmerki, Naut og Steingeit.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.