Í nýlegu fríi greip ég með mér bók á Leifsstöð til að lesa á ferðalaginu. Bókin er Einn dagur, eftir David Nicholls
Ég hef þann vana að lesa bækur á uppruna máli þess svo lengi sem ég kann það og þessvegna var ég pínu vonsvikin að finna ekki þessa bók á ensku. Hrædd um að íslenska þýðingin færi í taugarnar á mér sem er mjög algengt. En þar sem ég hafði heyrt góða hluti um bókina sló ég til og ákvað að láta ekki einstaka þýðingarmistök fara í taugarnar á mér.
Sagan fjallar um vina/ástar samband Emmu og Dexters sem kynnast og eiga eina nótt saman á útskriftardegi þeirra úr háskóla í Edinborg 15 júlí 1988. Við fáum svo að fylgjast með þeim á þessum degi ár hvert til 2006.
Ég féll algjörlega inn í söguna, hún lýsir persónum, tilfinningum og umhverfi á “raunsannan hátt” og ég gleymdi mér alveg. Var komin á regnvotar götur London í huganum, þar sem ég sat undir sólhlíf á Spánarströnd. Það er vitnað í atburði, tónlist og menningu hvers tíma svo ásamt því að vera lesa dramatíska og viðburðaríka sögu “Em og Dex” er maður í skemmtilegu ferðalagi um tíma og rúm. Ég á kannski einstaklega auðvelt með að lifa mig inn í atburði þar sem ég hef búið í London og þekki enska menningu vel en ég held að allir sem kunna að meta góða ástarsögu kryddaða húmor og lausa við tilgerð geti haft gaman að henni.
Mér þótti standa upp úr hversu raunverulegar persónurnar voru, maður gat séð sig í upplifunum þeirra og tilfinningum og sagan var laus við þær klisjur og tilgerð sem skemma margar ástarsögur.
Karlmenn myndu meira segja geta lesið hana án þess að finnast vegið að karlmennsku þeirra, enda bókin skrifuð af karlmanni, leikaranum David Nicholls. Skemmtileg lesning þrátt fyrir nokkur þýðingar-mistök..( sem ég leyfði ekki að fara í taugarnar á mér)
Ég hlakka til að sjá myndina og ætla að reyna halda sama opna huga fyrir henni og Anne Hathaway (hefði frekar vilja sjá breska leikkonu í þessu hlutverki) eins og ég gerði fyrir þýðingunni.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.