Fyrir nokkrum vikum kom út bókin Þekktu þitt magamál en hún fjallar meðal annars um hvernig við getum hlustað á líkama okkar og unnið bug á ofáti, átröskun og óheilbrigðum matarvenjum.
Höfundur bókarinn er er Linda W. Craighead en Helma Rut Einardsóttir og Lára Björgvinsdóttir þýddu hana. Helma Rut er yfirsálfræðingur næringar- og offitusviðs á Reykjalundi og Lára er Geðlæknir á Landspítalanum.
Það sem mér finnst gott við bókina er að hún nálgast átröskunarvandann á annan hátt en maður er vanur. Bókin er ekki ein önnur megrunarbókin heldur kennir hún lesandanum að takast á við átröskun með því að læra að þekkja svengdartilfinninguna og að hlusta á líkamann.
Þegar ég las bókina þá hélt ég á tímabili að hún væri skrifuð um mig, en ég gat samsamað mig henni á margan hátt. Þar voru hugtök sem ég kannaðist vel við og atferli sem ég hef svo oft stundað.
Fara í megrun, upplifa skort á mat, algjörlega springa á limminu og enda í átkasti (sem ílengist í nokkra daga).
Í bókinni eru ýmiss verkefni sem maður getur gert og má segja að þetta sé nokkuð verkefnamiðuð bók, þar sem maður æfir sig að takast á við allskonar aðstæður og í leiðinni hlusta á líkamann, en eftir að ég fór að tileinka mér það sem bókin miðlar hef ég náð ótrúlegu jafnvægi í matarmálum hjá mér.
Átköstin mín eru t.d. styttri, ég nýt matarins betur og einhvernvegin er laus við nagandi samviskubit þegar ég fer út af sporinu.
Það sem er gott við bókina er að hún einblínir ekki eingöngu á offitu og er hægt að nota æfingarnar í bókinni til að takast á við hvaða átröskun sem er. Í raun er hægt að nota aðferðarfræðina í bókinni til að bæta á sig kílóum á heilbrigðan hátt, viðhalda eða losna við þyngd, ásamt því að leiðrétta slæmar matarvenjur óháð því hvaða tilviljunarkennda tala kemur upp á viktinni þegar þú stígur á hana.
Það sem bókin kennir mann er að:
– Taka eftir raunverulegum merkjum líkamans um svengd og seddutilfinningu.
– Koma í veg fyrir átköst með því að „borða til að forðast að upplifa skort“.
– Æfa þig í „árangursríku tilfinningatengdu áti“.
– Þjálfa þig í að vera meðvitaðri um það sem þú borðar og hvernig þér líður af því.
– Þjálfa þig til að viðhalda því að borða samkvæmt innri merkjum líkamans.
Ég mæli með þessari bók fyrir alla þá sem hafa áhuga á matarvenjum hvort sem þeir eru að reyna að losna við aukakílóin eða ekki.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.