Fyrir stuttu stóð ég í Kolaportinu og virti fyrir mér skópar sem gengur undir nafninu Buffalo.
… en oft hef ég tekið eftir að hinir smekklegustu menn og konur geta stigið feilspor í tískunni. Kemur fyrir besta fólk.
Tísku-spekingar tönglast oft á því að tískan fari í hringi, og það gerir hún. Tískan er búin að fara svo marga hringi að hún er ramm-rangeygð og labbar skakkt.
Það sem mér finnst svo skondið er það að við virðumst gleyma þessari staðhæfingu jafnóðum og verðum alltaf jafn hissa þegar támjóir skór koma aftur í tísku.
Við verðum ekki bara hissa, fólk fær bara tvöfalt hjartaáfall. Spáið í því!
Eins og með Buffaló skóna. Þeir voru einu sinni í tísku duttu svo hressilega út en ef þið standið í dag í Kringlunni í tuttugu sekúndur lofa ég ykkur að þið munuð sjá fullt af skvísum í skóm sem gætu verið náfrænkur Buffalóana. Jafnvel bara hinum einu sönnu.
Ef við sem þykjumst vera með puttann á púlsinum erum alltaf að leita að nýjustu tískunni – Af hverju fáum við flog í hvert sinn sem eitthvað kemur aftur ,,í tísku”?
OMG! ÞYKKBOTNA/LÁGBOTNA/NIÐURÞRÖNGAR/ÚTVÍÐAR/INNPAKKAÐ/VAKÚMPAKKAÐ ER AFTUR KOMIÐ Í TÍSKU! TRÚIÐI ÞVÍ?!
Tíska er ekkert annað en tjáningarform og endirupplifun byggð á tíðaranda og áhrifum frá hinu fyrra. Af hverjum gnístum við tönnum þegar þróunin heldur áfram, þegar tískan og trendin hefja enn aðra hringferðina?
Af hverju ekki að líta á þetta sem minjagripi um þá tíma sem við lifum á? Nú er ólga á mörgum stríðshrjáðum stöðum í heiminum, er það þess vegna sem hermannamunstur eru fyrirferðamikil núna? Hvernig mun jafnréttisbarátta setja mark sitt á klæðaburð okkar? Hún gerði það á hippatímanum þegar brjóstarhaldarar brunnu. Hvað með kreppuna okkar krúttlegu? Ef barnabarnabörn okkar munu skoða myndir af okkur, myndu þau segja: já sjáðu hvernig neon-litir voru í tísku… það var augljóslega halli í ríkissjóði á þessum tíma.
Það er gaman að velta þessu fyrir sér og horfa á hlutina í aðeins stærra samhengi. Við lifum á sérstökum tímum og því er þægilegra bara að láta hlutina ráðast. Leysist skuldavandi heimilana? Finnum við líf á Mars? Koma axlapúðar aftur í tísku?
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.