Góður eftirréttur fullkomnar hverja máltíð og hvað er betra en að gæða sér á gómsætum ávöxtum á fallegum sumardögum?
Hér er hugmynd að flottum, sumarlegum forrétti sem alltaf er í uppáhaldi hjá mér en hann er líka að finna í bókinni minni Eldað af lífi og sál -og ekki er verra að það tekur enga stund að búa hann til.
Ávöxtum er skipt í skálar og toppaðir með ljúffengum mascarpone rjómaosti. Auðvitað mætti líka nota hreina jógúrt eða gríska jógurt ofan á, nú eða þeyttan rjóma. En hér er sem sagt mín útfærsla. Uppskriftin er fyrir fjóra.
- 10 jarðarber, skorin í tvennt
- 1 appelsína, afhýdd og skorin í bita
- 2 dl bláber
- 2 ferskjur, skornar í bita
- 1/2 límóna, safinn
- 2 msk. hunang eða 1 msk. púðursykur
- 200 g mascarpone rjómaostur
- 50 g flórsykur
- 1 vanillustöng, fræin
- pistasíuhnetur, saxaðar
Skiptið ávöxtunum í skálar, dreifið límónusafa yfir og hunangi eða púðursykri. Hrærið saman mascarpone rjómaostinn og flórsykurinn og skafið vanillufræin út í blönduna. Skiptið rjómaostsblöndunni yfir ávextina og skreytið með pistasíuhnetum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.