Guerlain gaf út flotta línu fyrir jólin 2011 sem heitir Guerlain Belle de Nuit Collection og er nafnið dregið af hinum fræga Vol de Nuit ilmifrá þeim sem var sett á markað árið 1933.
Í línunni má finna fallegan kinnalit, “highlight” perlur, ilmvatnið fræga, varalit og guðdómlega augnskuggapallettu sem ég fékk að prófa.
Í pallettunni eru 4 augnskuggar í bláum, grænum og silfruðum tónum, en þeir henta sérstaklega vel í kvöldfarðanir og smokey augu. Skuggarnir falla lítið sem ekkert niður fyrir augu, þéttleikinn er mjög góður sem er einna mikilvægast þegar maður kaupir sér augnskugga. Þar að auki eru umbúðirnar gullfallegar, silfraðar og dömulegar.
Ég farðaði sjálfa mig á öðru auga með augnskuggunum og tók myndir af því. Hægt væri að framkvæma förðunina á öðruvísi hátt en miðað við að þetta tók mig um það bil 5 mínútur var ég mjög sátt við útkomuna, sem var kvöldförðun með smokey áhrifum.
Ég blandaði ljósgræna og bláa litnum saman og setti yfir augnlokið, skyggði með dekksta litnum og setti silfraða litinn í augnkrókana og örlítið inn á augnlokið. Alls ekki flókið! Því næst kláraði ég með svörtum gel-eyeliner frá Bobbi Brown, setti svartan augnblýant í vatnslínuna og Hypnôse Drama maskara frá Lancôme í nokkrum umferðum á augnhár.
Ábending: Ef augnskuggar falla niður er mjög einfalt að taka hreinsiklút, þurrka undir auganu og setja hyljara upp á nýtt þar sem þurrkað var af. Augnsvæðið verður eins og nýtt!
Pallettan býður upp á endalausa möguleika og þeir sem kaupa hana verða alls ekki sviknir. Prófaðu þessa aðferð eða aðrar heima við og sjáðu útkomuna sjálf!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com