Ég bý í miðbæ Reykjavíkur eða póstnúmeri 101 og þegar ég sé fram á rólegt kvöld án manns og barna á ég mér smá rútínu.
Í kvöld skellti ég litla barninu í poka framan á mig, rölti um Þingholtin og klappaði kisunum á leið minni út á videóleigu. Á svona kvöldum nýt ég þess að taka mér ekta “stelpumyndir” og síðast varð New York I Love You fyrir valinu en hún er einmitt um augnablik í New York borg.
Ég ákvað svo að fá mér fullorðins-súkkulaði að maula (Dökkt Remi með myntu) og því næst lá leið mín á uppáhalds “skyndibitastaðinn” minn; Núðlusúpuna neðst á Skólavörðustíg. Þar panta ég alltaf sama réttinn og bið um auka engifer og krydd en kokkurinn er alveg farinn að þekkja mig og kunna utanbókar hvað ég vil.
Ég sest svo niður á meðan ég bíð eftir matnum og þá kemur “augnabikið”!
Inn gengur ung kona með lítið barn eins og ég, hún er dökkhærð og ég hef aldrei séð hana áður en hún er í svartri peysu frá E-label eins og ég, gráum leggings og gráum rússkinskóm sem eru nákvæmlega eins og ég á og þegar hún er að panta matinn þá klárar kokkurinn það fyrir hana því hann man hvað hún vill af því hún pantar alltaf það sama, eins og ég!
Litlu strákarnir okkar horfast í augu og brosa og ég man ekki hvað ég sagði, eitthvað vandræðalegt, því ég var að hugsa, hvaðan kemur þessi kona?
Þetta er sálufélagi minn, eða alla vega tísku-matar-barnafélagi minn. Hún er eins og ég, bara dökkhærð en við báðar með tagl, á þessum stað, að panta mat í eins fötum… en svo var maturinn minn tilbúinn og ég fór með barnið í pokanum, dvd-mynd, súkkulaði og núðlusúpu án þess að kynnast þessarri konu.
Því hversu vandræðalegt væri það að biðja um númerið hjá konu sem ég hef aldrei séð áður bara vegna þess að við höfum sama smekk á fötum, mat og eigum lítil börn..?
En allavega ef þessi stelpa/kona les þetta þá væri ég alveg til í að kíkja á kaffihús með börnunum og kynnast betur svona uppá grínið 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.