Þegar maður stígur sín fyrstu skref í förðun á er mjög eðlilegt að maður viti ekki allt og sumt sé erfiðara en annað.
Fyrir mitt leyti þá kunni ég ekki vitund að mála mig þegar ég byrjaði á því í kringum 13 ára aldurinn, þrátt fyrir mikinn áhuga á snyrtivörum.
Ég gerði bókstaflega allt vitlaust hvað varðaði meik, augnblýant, augabrúnir, maskara og gloss. Síðan kom auðvitað tímabilið þar sem ég setti of mikið á mig af öllu og leit út eins og ég hefði lent í jarðskjálfta við Maybelline standinn í snyrtivörudeild Hagkaups.
Fyrir ungar stelpur sem eru byrjaðar að mála sig er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:
- Þvoðu andlit kvölds og morgna, og vertu með hreint andlit og hendur áður en þú byrjar að mála þig.
- Notaðu gott dagkrem áður en farðinn er settur á, þetta verndar húðina bæði fyrir veðri, óhreinindum, umhverfi og ertandi áhrifum farðans. Gott er að hafa sólarvörn í kreminu.
- Settu lítið af hyljara, einum tóni ljósari en húðlitinn, á bauga, bólur og annað sem þú vilt fela.
- Settu á þig léttan farða með hreinum bursta eða svampi. Mikilvægt er að þvo bursta og skipta svömpum reglulega út til að forðast bakteríur. Ung húð á ekki að þurfa meira en mjög létt meik, litað dagkrem, létt púður eða steinefnapúður.
- Greiddu úr augabrúnum með lítilli greiðu og ef þú vilt geturðu fyllt upp í þær með léttum augabrúnablýanti eða augnskugga í sama lit og hárrótin/hárið. Ekki plokka augabrúnirnar of mikið!
- Settu léttan, ljósan augnskugga rétt yfir augnlokið ef þú vilt birta yfir augunum.
- Smá kinnalitur eða sólarpúður getur verið mjög fallegt, svo lengi sem það er ekki of mikið.
- Brettu augnhárin með augnhárabrettara.
- Settu á þig góðan maskara sem greiðir vel úr augnhárunum og gerir þau meira áberandi án þess að þau klessist.
- Fallegur, léttur gloss eða jafnvel varasalvi með smá lit í verndar varirnar og nær langt í því að gera mann frísklegri!
Ég mæli með því að spara ekki áður en dagkrem og farði eru keypt, þó húðin sé ung þá er hún stærsta líffærið okkar og það þarf að fara vel með hana. Augnskugga, gloss og annað slíkt er svo hægt að hafa í ódýrari kantinum.
Endilega farðu í gegnum þessa punkta, sama á hvaða aldri þú ert og deildu viskunni með þeim sem standa þér næst. Það er gaman að byrja að mála sig og enn betra ef maður er komin með smá leiðbeiningar!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com