Rétt eins og við erum ekki með neina fitukirtla í lófum og á iljum þá erum við með helling af þeim í andliti og í hársverði.
Þessir fitukirtlar eru svo gott sem óvirkið þegar við erum börn en komast í gagnið á gelgjuskeiði og fara stundum all hressilega af stað. Við það geta orðið stíflumyndanir vegna fyrirstöðu dauðra húðfruma eða utanaðkomadi efna og óhreininda.
Við verðum vör við þessar breytingar þegar unglingarnir okkar fara að fá fílapensla, bólur og jafnvel acne-kýli. Þessi ásjóna truflar oftar en ekki andlega líðan táningsins í þessum harða útlitsdýrkandi heimi og hér eru því nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:
1.
Húðin endurnýjar sig mest á meðan við sofum og því er best að fara að sofa með hreina húð án farða og eða utanaðkomandi óhreininda. Þetta ferli þarf ekki að vera flókið, bara einfaldur andlitshreinsir, þvottastykki og vatn.
2.
Hárgel og hárvax eru húðstíflandi. Ef viðkomadi notar slík efni er gott að skola þau úr hárinu áður en lagst er til hvílu.
3.
Þvoum koddaverið oft og reglulega. það er ekkert eins bólumyndandi og koddaver fullt af hárvaxi, slefi og gamalli sprunginni bólu sem andlitið liggur síðan í meðan við sofum.
4.
Hettupeysur, húfur, gleraugu, heyrnatól, símar og aðrir hlutir, sem liggja reglulega upp við andlit unglinganna okkar, ættu einnig að fá reglulegan þvott.
5.
Sumir unglingar stunda líkamsrækt og fara oft í böð og sturtur en fá samt bólur. Við stöðug böð framkallast yfirborðsþurrkur í húðinni sem örvar framleiðslu fitukirtla. Rakamagn húðar er hins vegar ekki nægilegt til að losa um dauðar húðfrumur. Þannig myndast stíflur. Þess vegna er mikilvægt að nota gott rakakrem, sem inniheldur ekki húðstíflandi rakabindiefni, eftir allan andlitsþvott og böð. Húðin vinnur best á vandamálum ef hún hefur nægan raka og nær þannig bestu jafnvægi.
6.
Ef unglingar eru að kreista bólur, sem þeir ættu náttulega alls ekki að vera að gera, er nauðsynlegt að sótthreinsa bólusvæðið á eftir. Þá mæli ég frekar með að nota Tea Tree ilmolíu en própanól-spritt. Ástæðan er einfaldlega sú að Tea Tree olía er ekki bara bakteríudrepandi, heldur er hún einnig bólgueyðandi og græðandi. Slíka töfraolíu ættu allir með bólur að eiga og fæst hún í næstu heilsubúð eða apóteki.
Í flestum tilfellum, með heilbrigðu líferni, kemst jafnvægi á fituframleiðslu húðarinnar og bóluvandamálið verður hverfandi. Hins vegar ef vandamálið virðist vera farið að verða óyfirstíganlegt, ekki hika við að leyta til húðlæknis. Acne conglobata er húðsýking sem nær niður í dermis. Slíkt húðástand getur valdið varanlegum örum og því ber okkur sem foreldrar að bregðast við áður en í óefni er komið.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come