Í haust byrjuðu skólar landsins á ný eftir sumarleyfin. Vafalítið hafa tilfinningar nemenda verið all blendnar við upphaf skólaársins. Sumir hafa verið fullir af tilhlökkun að hitta skólafélagana, fá fréttir og segja fréttir.
Að öllum líkindum hefur verið annar hópur ungmenna, sem ekki ber eins mikið á, sem fann fyrir ört vaxandi kvíðahnút í maganum síðustu vikurnar fyrir upphaf skólans. Það getur verið erfiðara en nokkur orð fá lýst að byrja – eða að byrja aftur í skólanum.
Ástæðurnar geta verið margar og hver sem þú ert lesandi góður þá er ekki ólíklegt að þú getir ímyndað þér nokkrar ástæður, svo sem einelti, námsörðugleika, fátækt, félagsfælni, fjölskylduerfiðleika og svo ótal margt fleira.
Kröfurnar og samkeppnin sem er ríkjandi hrjáir ekki aðeins hina fullorðnu heldur einnig unga fólkið og börnin, allt niður í leikskólana. Við þurfum því að vera vakandi fyrir velferð og hamingju barna okkar og barnabarna á skólagöngunni löngu svo að stolta brosið sem birtist við að fá fyrstu skólatöskuna og pennaveskið hverfi ekki of fljótt heldur endist í einni eða annarri mynd eins lengi og mögulegt er.
AÐ STYRKJA EN EKKI RÁÐSKAST
Hvernig má vernda en um leið styrkja, leiðbeina en um leið að gæta þess að ráðskast ekki með okkar yndislegu börn? Hlusta og leyfa þeim sem talar að finna sínar eigin lausnir, þær lausnir sem hæfa best viðkomandi hverju sinni? Gefum við okkur nægilegan tíma? Megum við vera að því sem skiptir máli? Hvernig væri að gefa sér smá tíma til að spá í hvað sé um að vera, hvers vegna og hvað sé hægt að gera. Allt tekur tíma. Þetta líka.
Hvenær gafst þú þér síðast tíma til að setjast niður í rólegheitum, út af fyrir þig og leyfðir þér að láta hugann reika um lífið og tilveruna, hugsaðir um það sem skiptir þig mestu máli í dag? Yfirleitt látum við slíkt sitja helst til lengi á hakanum. Við erum svo upptekin við að lifa lífinu frá degi til dags að við gleymum að njóta lífsins.
Við gerum best með því að vera til staðar, gefa okkur tíma til að vera með virka nærveru, virka hlustun, leyfa þeim hinum að finna að þau skipti okkur í raun og veru heilmiklu máli.
Þetta hefur ekki bara áhrif á okkur heldur hefur þetta áhrif á allt og alla sem við erum í samskiptum við.
Allt er orka. Allt hefur áhrif. Hugsanir þínar og líðan þín hefur áhrif á svo miklu fleiri einstaklinga en bara þig. Þú þarft að vanda val þitt á hugsunum, orðum og verkum, ekki bara sjálfs eða sjálfrar þín vegna heldur ekki síður vegna þeirra sem þú getur haft áhrif á.
SESTU NIÐUR MEÐ FLÆKJUNA
Þá erum við loksins komin að skýringunni á heiti pistilsins, þetta með flækjurnar. Hvenær settist þú síðast niður með garnflækju eða snærisflækju til að leysa og vinda í hnykil eða hönk – án þess að skera á?
Áttu flækju inni í skáp sem þú átt eftir að greiða úr svo að þú getir prjónað úr henni? Áttu engar flækjur? Fáðu hana þá bara senda í pósti, það er lítið mál að bjarga því! Það er nefnilega alveg ótrúlega öflugt að leysa flækjurnar í lífi sínu með því að sitja með raunverulega garnflækju og þráast við að skera á spottann, halda áfram að greiða úr flókanum – finna smugur hér og þar, koma hnyklinum í gegn og halda áfram að vinda.
Á meðan þú gerir þetta hugsar þú um hvaða flækjur eru enn að þvælast fyrir þér í eigin lífi?
Flækjur sem væri nú magnað að geta lagt alveg til hliðar í fullri sátt. Flækjur sem væru þá ekki lengur flækjur því það væri búið að leysa þær með einum eða öðrum hætti.
Það er um að gera að eiga nokkra svona garnflóka því þegar búið er að greiða úr fyrstu flækjunni koma svo mörg mál upp í hugann sem væri nú gott að koma frá og ekki síður mál sem tengjast fólkinu þínu, börnum, barnabörnum, skólanum, skólagjöldum, fatnaði fyrir skólann, heimavinnunni, félögunum o.sv.fr.
BYRJUM Á SJÁLFUM OKKUR
Byrjum á okkar eigin flækjum. Greiðum úr þeim eins og við getum því þá erum við í stakk búin til að vera raunverulega til staðar fyrir fólkið sem skiptir okkur máli. Leyfum hinum að finna sínar eigin lausnir, greiða úr sínum eigin flækjum.
Við gerum best með því að vera til staðar, gefa okkur tíma til að vera með virka nærveru, virka hlustun, leyfa þeim þannig að finna að þau skipti okkur í raun og veru heilmiklu máli.
Kærar kveðjur,
Jóna Björg Sætran M.Ed., markþjálfi
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.