„Hann þarf alltaf að vita hvar þú ert, hann þolir ekki fjölskylduna þína og vill helst hafa þig heima,“ stendur í grein sem ég skrifaði í desember s.l. Ef þú hefur horft á Exit þá hringir þetta bjöllum: Adam og Hermine í EXIT fyrir allann peninginn!
Í greininni fjallaði ég um fyrirbæri sem á ensku kallast Coercive Control (og ég þýddi sem stjórnunarofbeldi) og 13 atriði sem sýna hvernig því er beitt. Stjórnunarofbeldi hefur, sem betur fer, verið skilgreint sem refsivert athæfi í Bretlandi frá 2015 og hafa menn hlotið fangelsisdóma fyrir að beita því.
Munurinn á stjórnunarofbeldi og því sem við köllum andlegt ofbeldi er í grundvallaratriðum sá, að með andlegu ofbeldi er reynt að særa þolandann en með stjórnunarofbeldi er markmiðið alltaf að ná valdi yfir einstaklingnum og algjörum undirtökum í sambandinu. Til að ná þessu markmiði reynir gerandinn að skerða frelsi og sjálfsvirðingu þolandans og brjóta manneskjuna niður til hlýðni og undirgefni í sambandinu. Ofbeldismaðurinn setur þá sambandið oft upp þannig að hann sé í einskonar foreldrahlutverki og hafi vit fyrir báðum aðilum í sambandinu.
Þessi lýsing á ofbeldishegðun passar upp á 10 það sem við sáum Adam gera Hermine og ég er ekki ein um að hafa fengið kaldan hroll niður bakið við að horfa á þetta.
Ofbeldismaðurinn setur þá sambandið oft upp þannig að hann sé í einskonar foreldrahlutverki og hafi vit fyrir báðum aðilum í sambandinu.
Ekki bara týpur sem eru einangraðar við Osló
Ég á vinkonur, fleiri en eina, sem hafa látið sig þola algerlega ömurlega framkomu frá mönnum sem minna mig ansi mikið á gaurana í EXIT því þeir eru síður en svo einhverjar sér-norskar týpur sem eru bara einangraðar við Osló.
Þessir gaurar eru stereótýpur sem þú finnur um allan heim. Ég hef líka persónulega haft kynni af þeim en því skal ég segja frá því í öðrum pistli.
Forseti Smartlands, aka Marta María smarta, skrifaði ansi fínan pistil um Exit í dag þar sem hún segir m.a:
„Eftir að hafa horft á þættina vakna margar spurningar. Hvernig komast konur í sambærilega stöðu? Er það vegna þess að ástin er blind? Eða gera þær sér ekki grein fyrir að þær séu í raun giftar siðblindum narsissistum? Er hið „ljúfa líf“ svona eftirsóknarvert að þær eru tilbúnar til að líta unda? Eða er afneitunin svo sterk að öllu óþægilegu er bara ýtt til hliðar? “ skrifar hún og bætir við: „Undirrituð er ekki með svör við þessum spurningum en þættirnir gætu kannski hjálpað þeim konum sem eru í svipaðri stöðu og Hermine. Með því að horfa á þættina gæti kannski einhver áttað sig á því að í fullkomna lífinu er ekki allt sem sýnist.“
Rauðu flöggin sjást strax í byrjun
Spurningunni um afneitunina er auðveldlega svarað. Afneitun er það sem heldur þessu gangandi og ástæða þess að ástandið getur orðið svona slæmt er að ofbeldið byrjar ekki bara með hvelli eftir tvö deit heldur stigmagnast það smátt og smátt þannig að fórnarlambið verður samdauna. Allar konur sem hafa komist út úr svona samböndum votta þetta en taka líka fram að rauðu flöggin hafi í raun sýnt sig í upphafi. Þau hafi bara verið svo lítil og lúmsk og auðvelt að afsaka enda gaurinn með bæði gull og græna skóga í boði.
Höguðu sér ekki nógu vel sjálfar
Ég sendi greinina um stjórnunarofbeldið og atriðin 13 á tvær nánar vinkonur í þeim augljósa tilgangi að reyna að ná til þeirra, – en samt! …og ég átti alveg von á því… reyndu þær að afsaka makann með skýringum um að þær hefðu nú ekki hagað sér nógu vel sjálfar.
Svo tóku þær, eins og við var að búast, skýrt fram að þær könnuðust ekki við öll atriðin 13 og þessvegna ætti þetta ekki við þeirra sambönd. Það er alveg með ólíkindum hvað þetta afl afneitunarinnar er sterkt. Bara eitt atriði á listanum ætti að vera nóg til að leita aðstoðar fagaðila.
Ef þú ert ekki búin að horfa á EXIT þá hvet ég þig til að gera það strax. Þetta eru ekki einhverjir „heavy“ norskir drama þættir þar sem allir eru grenjandi með hor í non stop rigningu með riffil uppi í fjallakofa. Þetta eru klikkaðir spennuþættir um kynlíf, eiturlyf og þetta ofbeldi sem ég er nýbúin að finna orð yfir. Hver einasta kona sem ég þekki lotuhorfði á þá. Kláraði á einum degi. Nú þú! Þættirnir eru á Sjónvarpi Símans og RÚV sarpi.
Hér er trailer sem er svo svæsinn að hann er bannaður innan 16.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.