Borgin er Flórens, höfuðborg Toscana-héraðsins á Ítalíu. Cristina Bietolini keyrir fiatinn sinn eins og sannri, ítalskri konu sæmir: það hratt að farþeginn við hlið hennar hendist til í beygjum. Við erum á leið á heimili hennar við Piazza San Gervasio, þangað sem mér hefur verið boðið til kvöldverðar. Við Cristina höfðum unnið saman í þrjú ár hjá Armani fyrirtækinu í London, erum góðar vinkonur og henni finnst kominn tími til að kynna mér fyrir fjölskyldu sinni. Ég hafði mælt mér mót við Cristinu á Piazza Michelangelo þar sem styttan af Davíð eftir Michelangelo stendur.
Leiðin að torginu lá yfir hina þekktu brú, Ponte Vecchio, elstu brú borgarinnar, þar sem fínar gullsmíðaverslanir standa hlið við hlið. Í þessari tæplega 500 þúsund manna borg er aðsetur háskóla og erkibiskups; þetta er borgin sem var miðstöð menninga, þróunar ítalskrar tungu og bókmennta, enda borgin oft nefnd La Bella –hin fallega. Eftir þægilega gönguferð að Salvatore al Monte kirkjunni á torgi Michelangelos, beið mín sem sé þessi hressilega ökuferð…
Hlerar voru fyrir öllum gluggum á tveggja hæða fjölbýlishúsinu sem Cristina býr í, enda nauðsynlegir á heitum sólskinsdögum sem þessum. Þegar við komum gangandi upp stigann að íbúðinni beið öll fjölskyldan á litla ganginum til að fagna gestinum: Pabbinn, Alfonzo, móðirinn, Isabella, systurnar Giorgia og Annalisa, fullorðin kona sem kynnti sig sem Luciano Boffa og Luca Lanzani, fyrrum starfsfélagi minn hjá Giorgio Armani í London.
Mér er heilsað eins og gömlum vini, umvafin og kysst í bak og fyrir. Ilmandi matarilmur berst að vitum mér úr litlu, gamaldags íbúðinni (sem er stútfull af fallegum munum og persónuleika) þar sem innangengt er í öll herbergin úr eldhúsinu. En það var ekki í eldhúsinu sem dúkað hafði verið upp fyrir fimmtán manna matarveislu, heldur í litla ganginum. Þar var mér boðið sæti og í sama mund mættu nágrannarnir úr næstu íbúð til veislunnar. Móðirinn Isabella var á þeytingi ásamt Cristinu sem er alvön í eldhúsinu að skammta á diskana: ,,crostini toscani” kjúklingalifur að hætti Toskanabúa. Á eftir kjúklingalifrinni var borið fram lasagna.
Minn diskur var fylltur eins og ég væri stór, stæðilegur karlmaður og ég mátti hafa mig alla við að klára skammtinn, þá bjóst ég við kaffibolla, en nei, þetta reyndust fyrstu réttirnir af sex! Á eftir lasagna var borinn fram ítalskur kjötréttur. Eftirréttirnir reyndust vera þrír eða jafnmargir og klukkutímarnir við matarborðið urðu. Það sem einkenndi þessa kvöldstund var hlátur og samtal. Ítalir hafa þann háttinn á að bjóða mörgum gestum, bera fram nokkra rétti og borða hvern fyrir sig í rólegheitum. Eitt samtal stendur upp úr í minningunni, en það átti ég við Cristinu vinkonu mína eftir að ég gerði mér grein fyrir að Luciano Boffa, gamla konan sem hafði heilsað mér á litla ganginum, átti sitt eigið herbergi í litlu íbúðinni.
,,Er Luciana amma þín?“ spurði ég.
,,Nei” svaraði hún að bragði.
,,Er hún þá frænka ykkar?”
,,Nei, Luciana er ástkona afa mins,” svaraði Cristina.
Ég leit í kringum mig, en sá engan afa. ,,Og hvar er afi þinn?”
,,Hann er dáinn,” svaraði Cristina.
,,En býr ástkona hans hjá ykkur???”
,,Já, við erum eina fjölskyldan sem hún á að,” útskýrði Cristina. Amma var tuttugu árum eldri en afi og þegar hún dó flutti Luciana, sem hafði verið ástkona hans í mörg ár, inn til hans. Þau eignuðust engin börn.” Þegar Cristina sá spurnarsvipinn á mér bætti hún við: ,,Það er eðlilegt fyrir ítalskan karlmann að eiga ástkonu. Amma var hæstánægð með þetta.”
Já það er greinilegt að sinn er siður í landi hverju, hvort heldur er um að ræða ástarmál eða matarboð!
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.