Um daginn stóð ég mig að því að hlera samtal hjá tveimur stelpum um sem eru um tíu ára og voru að tala um það í mikilli alvöru hvor væri sætari: Jacob Black eða Edward Cullen (Twilight).
Í fyrstu var ég mjög hissa á þessu samtali og fannst það meira að segja smá hrollvekjandi þegar ég hugsaði um aldursmuninn á þessum stelpum og leikurunum sem þeim finnst svo „svakalega heitir“!
Svo mundi ég allt í einu eftir sjálfri mér þegar ég var yngri en ég hef haft gaman að því að horfa á sæta stráka síðan mamma mín átti Lada Samara (Luxus!) og í baksýnisspeglinum hengu flottir ilmspjaldakallar með sítt og þykkt, liðað hár og glansandi magavöðva.
Allir voru þeir um það bil 20 árum eldri en ég, en mér var alveg sama, ég elskaði þá þrátt fyrir aldursmuninn og níðþröngu gallabuxurnar, með beltunum með stóru sylgjunum.
Ilmkallarnir voru ekki einu sinni einu mennirnir í mínu lífi á þessum tíma en Stefán Hilmarsson náði að syngja sig inn í hjarta mitt þegar hann söng „Þú og Þeir“ í Eurovision 1988 og í nokkur ár fór ég ekki að sofa án þess að hafa í rúminu hjá mér bangsann minn og mynd af Lala-köllunum (Stebba Hilmars og Sverri Stormsker).
Ást mín á Stebba dó nokkrum árum síðar en ég held því fram að það hafi gerst þegar hann söng um Nínu 1991, þá aðallega vegna þess hvernig hann var klæddur og auðvitað líka vegna þess að ég vissi ekkert hver þessi Nína væri.
Þegar ég fór að eldast og var komin upp í grunnskóla fór sjóndeildarhringur minn svo bara stækkandi þegar kom að karlmönnum, og upplituð ilmspjöldin í Lödunni voru ekki eins spennandi og áður.
Johnny Depp stal hjarta mínu þegar ég var 8 ára gömul og hefur átt ákveðinn hluta af því síðan en hann er 23 árum eldri en ég. Leonardo DiCaprio átti 85 prósent af veggjaplássinu í herberginu mínu þegar ég var 10-12 ára, hann er 12 árum eldri en ég. Hin 15 prósentin af veggjaplássinu voru tileinkuð Quarashi en þeir eru 8-12 árum eldri en ég.
Eftir nánari umhugsun hef ég kannski ekki efni á því að vera hissa á samtali ungu stelpnanna er aldursmunur ekki það sem maður þarf að hafa áhyggjur af þegar maður er bara að láta sig dreyma!
Ég myndi samt líklega ekki neita Dave Grohl (17 ára aldursmunur), Jon Stewart (24 ára aldursmunur) eða Seth Meyers (13 ára aldursmunur) um faðmlag, nema þá bara vegna þess að tveir þeirra eru giftir…
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.