Art Photos er ljósmyndagallerí og sýningarsalur sem opnað var í Skipholti 35 nýlega. Í björtum sýningarsal eru seldar og sýndar ljósmyndir eftir marga ólíka listamenn sem allir eiga það þó sameiginlegt að vera kvenmenn.
Eigendur Gallerísins eru þær Berglind Andrésdóttir, Rakel Björt Jónsdóttir og Bára Kristjánsdóttir sem luku allar nýverið námi í listrænni ljósmyndun. Þær segja að eftir námið hafi þær áttað sig á að unnendur ljósmynda ættu ekki auðvelt með að ganga inn í verslun og velja sér ljósmyndalist og því hafi þær skellt sér í djúpu laugina í þessum efnum.
Þrátt fyrir að Listahátíð í Reykjavík árið 2010 hafi verið veisla ljósmyndunar finnst þeim þörf á að vegur ljósmyndarinnar á Íslandi fái þann sess sem hún á skilið og sömu viðurkenningu og hún fær um allan heim.
Ásamt því að selja gjafakort, ljósmyndabækur, eigin verk og annarra kvenna bjóða þær upp á aðstöðu til leigu fyrir ljósmyndara sem bjóða upp á fjölskyldu, ferminga, barna og útskriftarmyndatökur og fyrir þá sem vilja skapa sína eigin list.
Meðal þeirra sem eiga verk í sölu eru Jóna Þorvaldsdóttir, Ólöf Erla Einarsdóttir, Sólný Pálsdóttir, María Kristín Steinsson, Rebekka Guðleifsdóttir, Rúna Dögg Cortes, María Katrín, Ruth Ásgeirsdóttir, Ásdís Eva Ólafsdóttir, Ásta Sif, Sigurborg Rögnvalsdóttir og hópurinn fer stækkandi.
Einnig má þess geta að ljósmyndir frá Íslenska Flickr-hópnum eru til sölu og rennur andvirði þeirra til styrktar Blátt áfram.
Smelltu á myndirnar til að skoða ljósmyndagallerí. Frekari upplýsingar www.artphotos.is
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.