Við íslendingar eigum frábærar sundlaugar og þær eru náttúrulega þær “bestu í heimi” ef aðspurður heimamaður yrði fyrir svörum. Við eigum nóg af heitu vatni og í hverju krummaskuði um landið allt er að finna ótrúlegar sundlaugar sem margar hverjar flokkast undir vatnagarða.
Ég get þó ekki annað en öfundast út í frakka þegar ég sé þessa sundlaug sem Jean Nouvel hannaði í Le Havre. Hún er algjört listaverk á sviði arkitektúrs sem ekki væri auðvelt að leika eftir.
Við hönnunina var tekið mið af því að þessi 5000 fermetra bygging væri ekki yfirþyrmandi og að hljóðvistin, sem oft er svo slæm í svona mannvirkjum, yrði eins og best væri á kostið. Lýsingunni er einnig ætlað að skapa notalega stemmningu og hugsað er fyrir öllum smáatriðum í þessari risavöxnu sundlaug.
Þarna eru heitir og kaldir pottar, vaðlaugar, barnalaugar, laugar ætlaðar eingöngu til sunds, spa, gufa og útisundlaug svo eitthvað sé nefnt. Það væri gaman að sjá svona hönnunarperlu sem sundlaug einhversstaðar á Íslandi.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.