Viljirðu gleðja ástina þína og koma á óvart getur einfaldur árbítur í rúmið á sunnudagsmorgni verið málið. Nú þegar vor er í lofti er viðeigandi að reiða fram litríka og glaðlega brauðsneið, með jarðarberjum, hunangi og ferskri myntu.
Með góðum kaffibolla eða nýkreistum ávaxtasafa mun brauðsneiðin ljúfa gera kraftaverk og verða dásamleg byrjun á deginum.
- brauðsneiðar, beyglur eða rúnstykki
- rjómaostur, gjarnan mascarpone
- jarðarber
- fljótandi hunang
- fersk mynta
- pistasíuhnetur, saxaðar smátt (má sleppa)
Ristið eða grillið brauðið. Stappið jarðarber í lítilli skál, um það bil 2 stór jarðarber á hverja brauðsneið. Ekki mauka jarðarberin of mikið, það er betra að finna fyrir bitum. Smyrjið brauðsneiðarnar með rjómaosti, setjið maukuð jarðarberin ofan á. Dreypið nokkrum dropum af hunangi yfir allt saman, stráið svo pistasíuhnetum og ferskri myntu yfir og berið fram.
Undurfögur brauðsneið er tilbúin og dagurinn getur ekki byrjað betur!
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.