Ég upplifði margar nýjar og framandi tilfinningar síðasta haust en allar tengdust þær bæði skólanum sem ég var að byrja í… og sjálfri mér.
Ég hef alltaf haft svolítið gaman af því að sjá hvað ég get, fara aðeins út fyrir þægindamörkin og “pusha” sjálfri mér. Það hefur eflaust verið út af þessu sem ég skráði mig nánast blindandi í lífefna- og sameindalíffræði í HÍ síðasta sumar, vissi ekkert hvað ég væri að fara útí en ákvað að halda fyrir nefið og hoppa beinustu leið ofan í djúpu laugina og ótrúlegt en satt þá náði ég öllum prófunum og meira að segja með fínustu einkunnir! 🙂
Stærsta uppskeran eftir haustönnina var að trúa því að ég get allt sem ég vil og að gefast aldrei upp! Nýtt hugarfar!
Ég byrjaði önnina á því að vera alltaf að miða mig við alla hina sem eru með mér í námi. Hugsaði: “Þau eru öll yngri en ég og nýkomin úr námi”, eða “þau eru miklu betur undirbúin en ég” en um leið og ég hætti að hugsa svona þá fóru hlutirnir að breytast.
Það er nefninlega ekkert grín að reka heimili með tvö börn og báðir foreldrarnir í fullu háskólanámi og að vinna en þrátt fyrir marga kvíðahnúts magakrampa, endalaust mígrenisköst og stundir þegar ég grét því ég skildi ekki eitthvað, þá hélt ég áfram með mikilli þrautseigju. Á endanum kom ég sjálfri mér stórkostlega á óvart og fer inní nýtt ár með heilmikla trú á sjálfri mér.
Eftir þessa dramatísku önn hef ég sett sjálfri mér hálfgerð áramóta markmið, ekki áramótaheit.
Þau verða ekki þessi týpísku “missa xxx kíló” og “fara uppí rúm fyrir klukkan 23” heldur vil ég setja mér markmið sem hjálpa sjálfri mér að byggja upp álit mitt á sjálfri mér! Fyrir mér skiptir nefinlega mestu máli hvað mér finnst um sjálfa mig.
1. Aldrei tala niðrandi um sjálfa mig, sama í hverju það er. Ég byrjaði reyndar á þessum sið í haust en ég ætla að halda honum áfram.
2. Ekki miða mig við aðra. Gera frekar mitt besta og reyna gera betur en áður.
3. Aldrei gefast upp þótt mér mistakist. Reyna bara aftur! 🙂
4. Þrautseigjan þrautir vinnur allar. Orðatiltækið er reyndar “þolinmæði þrautir vinnur allar” en hitt ætla ég svo sannarlega að tileinka mér.
Svo fékk ég frábært ráð frá konu sem var að fylgjast með þegar ég var í prófi en hún sagði við okkur að muna að njóta vel, því þótt við værum í prófi þá værum við samt sem áður að uppskera.
Ég vona innilega að þau sem hafa litla trú á sér, gagnvart hverju sem er; námi, vinnu eða öðru, geti tekið þennan litla “pepp” lista til sín og farið inní nýtt ár með það að markmiði að öðlast trú á sjálfum sér!
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður