Eflaust eru einhverjir byrjaðir að huga að áramótaheitunum sínum fyrir árið framundan. Ef þú ert ekki ein eða einn af þeim þá þarftu alls ekki að örvænta.
Lífið er ekki klippikort svo þú færð möguleika á hverjum degi að byrja upp á nýtt, að einfaldlega hefja lífið sem þú vilt lifa. Allt sem þú gerir er í þínum eigin höndum og þú ræður ferðinni. Ef þú hefur heilsu þá ætti sérhver draumur að geta orðið að veruleika einn daginn.
Með árunum hef ég uppgötvað að það er eitt sem að getur truflað mína tilveru. Eitt sem kemur aldrei tilbaka sama hversu heitt maður óskar þess.
Það er tími.
Tíminn getur unnið með manni og á móti. Þegar ég hef þráð heitt að standa mig í starfi hef ég verið með bullandi samviskubit útaf öðru. Þá hefur mér fundist ég ekki sinna heimilinu nógu vel. Þá get ég ekki mætt á æfingar hjá börnunum og ósjaldan hafa þau fengið kaldan kvöldmat.
Þegar ég breytti lífinu örlítið, fór í nám og var meira til taks fyrir börnin var samviskubitið enn til staðar. Þá fann ég ekki fyrir stoltinu af sjálfstæðum vinnubrögðum. Ég er þó smám saman að læra að það er í lagi að sinna ekki öllu í einu.
Núna er ég er BARA í háskólanámi en reyni að klappa sjálfri mér reglulega á öxlina. Ég á það stundum skilið. Áramótinheitin mín snúast alls ekki um að missa einhver kíló, borða hreint fæði og vera betri útgáfa af sjáfri mér. Nei, aldeilis ekki. Ég mun halda áfram að vera ég, ofur ákveðin og stundum pirruð. Borða ís á hverjum föstudegi, hreyfa mig þegar ég nenni, drekka mitt rauðvín og borða heilan camenbert í morgunmat ef mig lystir. Kannski ekki sjarmerandi í hinum fullkomna heimi en það er einmitt málið. Ég er ekki fullkomin og langar ekki að leita að sjálfri mér allt lífið. Ég er nákvæmlega hér og nú og þarf því ekki að setja óraunhæfar kröfur á líkama og sál.
Þó hef ég valið að nýta tímann sem flýgur svo auðveldlega frá manni og kemur aldrei aftur. Ég mun nýta hann í meiri samverustundir með börnunum mínum því eftir allt saman eru þau það dýrmætasta sem ég á. Það má vera hvað sem er. Baka saman, fara í göngutúra og horfa á mynd saman. Teikna, spila, elda og hafa það huggulegt. Á síðunni forvarnir.is eru skemmtilegar hugmyndir að samverustundum og þá rakst ég á hugmyndina að gera myndband saman. Það verður á dagskrá hjá okkur. Einhver fíflalæti og vitleysa.
Samveran er það allra mikilvægasta í heimi barna okkar og því eru áramótaheitin ósköp einföld í ár. Þau eru tvö og hljóma svona:
Elska meira og muna að segja það upphátt – og meiri samverustundir með börnum og manninum mínum.
Væmið, ekki satt? Fullkomlega ófullkomið og væmið. Ég elska það ❤️
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!