Það er ótrúlegt hversu miklum sárindum manneskjur geta valdið.
Við höfum líklega flest ef ekki öll sært einhvern einhvertíma hvort sem það er viljandi eða ekki, hvort sem það voru vinir, óvinir, ættingjar, ókunnugir, makar, kunningjar, vinnufélagar, skólafélagar eða fyrrverandi elskhugar.
Við höfum flest sagt eða gert hluti sem við óskum seinna að við hefðum ekki gert en þá skiptir mestu máli að gera sem best úr aðstæðunum, biðjast afsökunnar ef við höfum tök á því og lofa sjálfum okkur að gera betur næst.
Ég veit ekki hvort það fylgir því að verða fullorðin eða hvort heimurinn er virkilega að breytast svona mikið svona hratt en mér finnst ég alltaf verða meira og meira vör við það að fólk sé vont hvort við annað algjörlega viljandi. Jafnvel fullorðið fólk uppnefnir, skilur út undan, stríðir og beitir ofbeldi, andlegu eða líkamlegu. Í síauknum mæli finnst mér fólk ekki sýna öðru fólki þá virðingu sem það á skilið, við hreitum í afgreiðslufólk, við uppnefnum á netinu og við ýtum fólki frá okkur á djamminu um helgar og þaðan af verra.
Það sem er líka slæmt er að oft sýnum við aðstæðum annarra enga samúð, heldur smjöttum frekar á einkalífi annarra eins og merkingarlausu slúðri. Við getum talað um morð, nauðganir, skilnaði, framhjáhald, ofbeldi, stríð og annað rétt eins og við séum að ræða hvað eigi að vera í matinn kvöldið á eftir.
Vissulega væri erfitt að taka alla þessa hluti inn á sig í því samfélagi sem við búum í dag því því miður er það svoleiðis að fyrir flestum finnst virðast slæmu fréttirnar oftast vera safaríkari en þær góðu.
Sú staðreynd ein og sér ætti að sýna okkur fram á, að eitthvað er athugavert við það hvernig við hugsum, og fá okkur til að hugsa tvisvar áður en við tjáum okkur um viðkomandi málefni. -Ef við höfum ekki eitthvað fallegt eða hvetjandi að segja, eða ef við finnum ekki tilgang með því að segja það sem við höfum til málanna að leggja, af hverju ekki bara að halda því fyrir okkur sjálf?
Í ár ætla ég í fyrsta skipti að strengja áramótaheit, árið 2012 ætla ég að vera betri manneskja og gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að láta þeim sem ég umgengst og þá sem verða á vegi mínum líða vel og ég skora á alla að gera það sama!
Ekkert góðverk er sóun, sama hve lítið það er. – Esóp
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.