Það kenndi ýmissa grasa á sýningarpöllunum árið 2011 þó að sumt hafi verið vinsælla en annað. Harða rokkaraútlitið var á undanhaldi en mikið var um rómantík, jarðliti, víð snið og falleg mynstur.
Síðasti vetur einkenndist af klassík, kvenleika 0g dökkum litum eins og vínrauðum, dökkbláum, fjólubláum og svörtum. Mikið var um kjóla, mynstraðar sokkauxur og fylgihlutirnir voru einfaldir. Hönnuðir eins og Prada og Louis Vuitton voru greinilega undir áhrifum frægra kvenna frá 6. áratugnum eins og Audrey Hepburn og Elizabeth Taylor.
70’s tímailið kom sterkt inn með vorinu í allri sinni dýrð, með útvíðum buxum, lausum toppum og kjólum, jarð- og pastellitum. Marc Jacobs, Jason Wu, Thakuun, Rodarte, Derek Lam og Tory Burch sýndu flottar útgáfur af þessu! Ég og margar vinkonur mínar tókum þessari tísku fagnandi þar sem að í henni ráða þægindi ríkjum og flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Pastellitirnir héldust fram á sumarið og neonlitir komu líka inn. Það mátti sjá guðdómlega fallega strandkjóla og síðkjóla (löngu kominn tími á þá!) og stuttbuxurnar voru að sjálfsögðu áfram inni. Samfestingar voru stórt trend í sumar og einnig rendur í öllum regnbogans litum! Blúndur og gegnsæjar blússur urðu vinsælar.
Haustið/veturinn snéru dæminu alveg við þegar kven-smókingar, dragtjakkar og hattar urðu vinsælir en klassíkin og kvenleikinn hélt sér þó áfram. Litavalið fór út í brúna og svarta tóna og fötin voru örlítið undir áhrifum 10. áratugarins þó með aðeins fleiri litum og án dökka varablýantarins (sem betur fer). Uppáhaldið mitt var án efa línan frá Moschino með flottum jökkum og höttum.
2011 hefur verið virkilega gott ár framan af varðandi tísku og mér finnst líklegt að flestar okkar eigi eftir að horfa sáttar til baka á gamlar ljósmyndir af okkur eftir nokkur ár…
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com