Apótek restaurant opnaði í desember á síðasta ári og hefur hann verið nær fullsetinn allar helgar frá opnun.
Við pjattrófugengið mættum á staðinn klukkan níu á fimmtudagskvöldi og komumst fljótt að því afhverju staðurinn er svona vinsæll. Við völdum 6 rétta smakkseðil sem var alveg æðislegur.
Byrjuðum á freyðivíni í fordrykk ásamt því að deila tveimur kokteilum, southern lights og whiskey sour. Alveg geðveikir kokteilar! Með þeim betri sem við höfum smakkað.
Húsvínið var ekki fyrir okkar smekk en Apótekið er með alveg ofboðslega gott úrval af vínum og þjónninn var fljótur að leysa úr því. Kom með annað sem var algjörlega dásamlegt.
Fyrstur á borðið var réttur sem samanstóð af túnfiski með himnesku lárperumauki. Við vorum allar sammála um að þetta væri einn besti réttur sem við höfum smakkað á ævinni!!
Hann bókstaflega bráðnar í munninum.
Svo kom önd sem var líka mjög góður réttur og nautatartar sem var líka alveg sjúklega gott, borið fram með hnetum og kreist smá lime yfir og þetta var þvílík veisla fyrir bragðlaukana!
Þessu næst kom pönnusteikt keila á borðið en hún var með mjög skemmtilegu meðlæti, byggi, spínat- og dillkremi.
Nautið í lokin var alveg dúnmjúkt en Apótek restaurant býður uppá einstaklega gott nautakjöt og stillir því upp á mjög pró hátt í þar til gerðum glugga.
Yfir það heila fannst okkur þessi upplifun alveg meiriháttar góð frá því við stigum inn yfir þröskuldinn og vöppuðum svo tipsý heim á leið.
Eini gallinn var sá að það gekk frekar hægt að koma fyrsta réttinum á borðið og það tók rosalega langan tíma fyrir þjóninn að koma með vínið okkar.
Þjónustan sem slík var hinsvegar afbragðsgóð, allir þjónar fagmannlegir og kurteisir fram í fingurgóma.
Af þessari reynslu að dæma mælum við með því að ef fólk ætlar að fara í smakkseðilinn þá mælum við með að byrja frekar fyrr en seinna að borða þar sem það tekur dágóðan tíma að gæða sér á sex gómsætum réttum og alls ekki gott ef öllu seinkar og maður er að borða síðustu réttina um miðnætti.
Þetta sló þó ekki skugga á kvöldið okkar því maturinn og þjónustan voru svo framúrskarandi og eflaust bara einhver óheppni að allt gekk svona seint.
APÓTEK RESTAURANT er til húsa í Austurstræti 16 þar sem áður var rekið apótek til fjölda ára.
Staðurinn er mjög skemmtilega innréttaður í anda apóteksins en óformlegur veitingahúsahönnuður ríkisins, Leifur Welding og Brynhildur Guðlaugsdóttir sáu um hönnun staðarins og tókst vel til. Kokteilarnir heita til dæms örvandi og róandi og í hillunum má sjá allskonar gamla muni sem tengjast lyfjabransanum.
Gengið er beint inní lounge-ið sem er mjög skemmtilega uppsett en þar er jafnframt happy hour þar frá 16-18 alla daga.
Eldhúsið er svo opið fyrir allra augum og það getur verið mjög skemmtilegt að fylgjast með kokkunum vinna. Í eldhúsinu eru matreiðslumeistararnir Carlos Gimenez og Theódór Dreki Árnason en með þeim eru úrvals fagmenn og einnig matreiðslumenn úr kokkalandsliðinu. Kombó sem getur ekki klikkað.
Eins og lesendur okkar vita erum við sérlega áhugasamar og fróðar um veitingastaði og höfum prófað þá ansi marga í gegnum tíðina. Apótekið fær hjá okkur fjórar og hálfa stjörnu sem skipar því sæti meðal bestu veitingastaða borgarinnar. Þú semsagt verður að prófa.
[usr 4.5]
Smelltu hér til að skoða Apótekið á Facebook og fylgjast með nýjum réttum, verðum á hádegismatseðli og fleira og fleira.
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður