Anna Margrét er 26 ára gömul Reykjavíkurmær sem stundar nám í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún er líka Instagram fyrirsæta í hjáverkum og fædd í krabbamerkinu svo fátt eitt sé nefnt.
Hvað er tíska fyrir þér Tíska er fyrir mér tjáningarform og túlkun á því hvernig við upplifum okkur sjálf hverju sinni. Það þýðir samt ekki að ég sé þunglynd og með persónuleikaröskun þó ég sé með svart naglalakk. Tengingin við innra sjálfið er samt alltaf einhverstaðar þarna á bak við gallabuxnavalið mitt, svona óbeint.
… ætla samt að biðja tískuguðina um að koma ekki aftur með þessar ótrúlega lágu gallabuxur sem náðu svo stutt upp á búkinn að maður þurfti að ganga um með peysu bundna yfir mjaðmirnar því annars var maður bara að ,,múna” alla í kringum sig.
Hvaða hönnuðir eru í eftirlæti hjá þér? Á mínum yngri árum þóttist ég þekkja alla hönnuði sem höfðu nokkurn tímann hannað vasaklút. Eitthvað virðist hafa þornað upp í þessum viskubrunni mínum. Hins vegar ef mér er svona stillt upp við vegg og hótað öllu illu ef ég nefni ekki eftirlætishönnuðina þá væri það eftirtaldir; hin danska Stine Goya, hönnunarteymið á bak við fatamerkið COS og Rakel Jónsdóttir, stórvinkona mín og upprennandi stjarna í hönnunarheiminum (engin pressa!).
Hvar kaupirðu helst föt? Í hverri útlandaferð verð ég óbærileg, með kort í hönd og andstutt að leita að næstu Cos verslun. Ég reyni að nýta tækifærið og versla vel erlendis, enda legg ég upp úr því að finna gæðaflíkur án þess að þurfa að fjármagna kaupin með líffærasölu á svörtum markaði (of áhættusamt). Gina Tricot af-skinkaðist fyrir nokkrum árum og hef ég tekið henni opnum örmum. Annars þyki ég ansi lunkinn second-hand verslari og hef ég ófáu sinnum dottið lukkupottinn í búðum eins og Hjálpræðishernum. Að finna Christian Dior jakka inn á milli krumpugalla í andfýlukjallara og borgar fyrir hann eittþúsund krónur er líklegast það fallegasta sem hefur komið fyrir mig.
Uppáhaldsflíkin núna? Uppáhaldsflíkin mín núna er Escada kápa sem ég fékk í Nostalgíu.
Must have í fataskápinn? Eitthvað sem þú verður að eiga í fataskápnum (skv. 10 gr. Stjórnarskrá) eru góðar, svartar, milli þykkar sokkabuxur frá góðu merki. Þú getur verið fabúsh skvísa í geggjuðum skóm og kjól og det hele, en úti eru 30 metrar á sekúndu, -8 stiga frost og skafrenningur. Þá er gott að eiga góðar sokkabuxur. Sleppur líka við blöðrubólguna.
Að finna Christian Dior jakka inn á milli krumpugalla í andfýlukjallara og borgar fyrir hann eittþúsund krónur er líklegast það fallegasta sem hefur komið fyrir mig.
Mesta persónulega fashionfail hjá þér?
Mín mistök tískulega séð er allt árið 2007 þegar ég ákvað lifa eftir mottóinu “bring back the 80’s”. Ég setti plastblóm, sem átti að vera skreyting á baðherbergi í hárið á mér, íklædd bleikum krumpugalla og blúndu korsiletti, silfruðum Moonboots, með pastel bleikan varalit og svarta punkta undir augunum. Nota bene, þá var ég kosin Best Klædda í Kvennaskólanum þetta árið.
Hvaða trend finnst þér flottast nú í vor? Það sem ég er mest spenntust fyrir í vor trendlega séð er þessi þægindastefna sem nú virðist virkilega vera að komast á loft. Þægilegri skór, þægileg föt, þægilegt vor. Ég ætla vera þægileg langt fram á haust.
Uppáhalds snyrtivaran í dag? Snyrtivaran sem ég held mest upp á núna er litaða dagkremið frá Kanebo. Það gerir mig fjórtán sinnum ferskari og á þessum síðustu og verstu tímum getur litað dagkrem komið manni ansi langt.
Hvaða snyrtivöru kaupirðu aftur og aftur? Sú snyrtivara sem hefur verið vinkona mín í gegnum súrt og sætt er blauti eye-linerinn frá Body Shop. Ég skal viðurkenna tvennt; í fyrsta lagi er ég með doktorsgráðu í að setja á mig blautan eye-liner og gera svona vængi. Í öðru lagi þá hef ég oft haldið fram hjá Body Shop og prufað mig áfram með eye-linera frá t.d Mac og Bobby Brown. Hins vegar er Body shop eye-liner stóra ástin í lífi mínu, hann er eins og Tina Turner, Simply the best og núna nota ég hann einungis.
Galdurinn að góðu útliti? Fyrir mér er enginn galdur að góðu útliti. Það sem það snýst um er að þykja vænt um sjálfan sig og sitt útlit, bæði kosti þess og galla. Þeim sem finnst þeir líta vel út, líta fjandi vel út.
Uppáhalds tísku Icon? Mitt tískugoð er engin ein manneskja, heldur blanda af vel klæddu og vel gefnu fólki í lífi mínu.
Versta tímabil tískusögunnar? Svo ég dragi nú aftur fram ókeypis heimspekipælinguna mína með að fólk tjái innra sjálfið sitt í gegnum tísku og útlit, þá vil ég ekki lasta neitt tímabil í sögu tískunnar. Allir tískustraumar eru mótaðir af tímanum og þeim aðstæðum sem voru við hverju sinni. Hlutir eins og stríð, hungursneið, góðæri, jafnréttisbarátta og allskonar fullorðins voru í gangi yfir hvert tímabil tískunnar og því er þetta partur af sögu mannsins. En til að vera með derring ætla ég samt að biðja tískuguðina um að koma ekki aftur með þessar ótrúlega lágu gallabuxur sem náðu svo stutt upp á búkinn að maður þurfti að ganga um með peysu bundna yfir mjaðmirnar því annars var maður bara að ,,múna” alla í kringum sig. Það er bara nasty, sorrýmeðmig.
En besta? Ég á erfitt með að gera upp á milli tímabilana, sérstaklega þar sem ég var svo diplómatísk í svarinu hér að ofan. 50’s er elegant en svo er 60’s svo skemmtilega ögrandi og 70’s með sína brennandi brjóstarhaldara. Ég er svo meðvirk að ég geri ekki upp á milli tímabilanna. Höfum þetta eins og Cheerios vs. Honey Nut Cheerios, bara bæði betra!
Eitthvað að lokum? Að lokum vil ég reyna ítreka það að svo lengi sem þú ert ánægð í eigin skinni þá lítur þú vel út. Varalitur eða klórþvegnar gallabuxur eru aldrei að fara gera þig að tískudrottningu nema að þér líði vel í því og sért stolt/ur af því hver þú ert og fyrir hvað þú stendur. Meira gáfulegt hef ég ekki að segja.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.