Fyrir nokkrum vikum var mér boðið á fyrirlestur um andlegt ofbeldi. Ég dreif mig af stað enda áhugasöm um sambönd og mannleg samskipti… Við verðum eflaust aldrei nógu vel að okkur í þessum efnum og maður getur endalaust lært.
Á bak við fyrirlesturinn, sem kallast Andlegt Ofbeldi, Einkenni, afleiðingar og lausnarskref, standa þau Linda Baldvinsdóttir, markþjálfi og samskiptaráðgjafi, og Theodór Birgisson, hjóna -og samskiptaráðgjafi, en bæði starfa hjá Lausninni-Fjölskylduráðgjöf þar sem fyrirlesturinn fór fram.
Ég hafði fram að þessu, líkt og eflaust þú og flestir, haft einhverjar hugmyndir um fyrirbærið andlegt ofbeldi og hvernig það lýsir sér í samskiptum en mig hafði aldrei grunað hversu víðfemur vandinn getur verið, og hversu djúpt er hægt að sökkva í slík ofbeldissambönd án þess að gera sér grein fyrir því í hvaða óefni er komið.
Ekki bara í hjónaböndum
Sambönd sem einkennast af andlegu ofbeldi eru ekki alltaf á milli maka eða sambýlinga.
Þau geta líka verið innan fjölskyldna, einn ættingi getur lagt annan í einelti með þessum hætti, þetta viðgengst á vinnustöðum, meðal vina og foreldrar beita oft börn sín andlegu ofbeldi. Í stuttu máli er hægt að segja að einn aðili beitir aðra manneskju ofríki og ofbeldi sem miðast við að gera lítið úr viðkomandi og finnast hún/hann ekki vera ‘of worth and value’ – eða ‘einhvers virði.
Sum sem þetta lesa gætu jafnvel beitt einhvern andlegu ofbeldi núna án þess að gera sér almenninlega grein fyrir því og aðrir eru beittir andlegu ofbeldi. Jafnvel djúpt sokknir í slíkt samband og hafa reynt að komast úr því með lélegum árangri.
Andlegt ofbeldi hefur í för með sér margar og mjög skaðlegar afleiðingar en eftirtalin eru nokkur einkenni á þessum ‘samskiptum’.
1. Þér líður eins og þú hafir verið sett niður eða skömmuð en veist ekki ekki hvers vegna.2. Gerandinn skiptir um ham reglulega. Er ýmist sjarmerandi eða í bræðikasti án fyrirvara.
3. Gerandinn kemur á köflum fram við þig eins og þú sért hans versti óvinur, verður reiður af minnstu ástæðu. Líklega endar þetta í rifrildi.
4. Þú tiplar á tánum í viðleitni til þess að forðast hugsanlega árekstra eða leiðindi.
5. Gerandinn ætlast til að þú vitir hvað hann hugsar og upplifir innra með sér. Honum finnst þú eiga að bregðast við ósögðum orðum og óskum og að þú setjir það ofar þínum eigin þörfum.
6. Þú upplifir þig í öngstræti þar sem litlu skiptir hvað þú gerir eða segir, eða gerir ekki.
7. Þú upplifir örvæntingu þegar gerandinn „misskilur“ það sem þú gerir og eða segir. Rökræður sem miða að því að leysa ágreining virðast vonlausar. Gerandinn upplifir slíkt sem gagnrýni.
8. Þú verður meðvirk og tekur til við að finna á hegðun gerandans eðlilegar skýringar.
9. Hlutir sem virkuðu skýrir og skynsamir í upphafi verða ruglingslegir. Þú ferð að efast um eigin dómgreind og upplifanir.
10. Gerandinn dregur fram það versta sem í þér býr. Án þess að ætla þér það segir þú eða gerir hluti sem þú hélst að þú ættir ekki til í persónuleika þínum.
11. Þér finnst þú oft óhæfur einstaklingur og missir sjálfstraust þitt.
Tilfinningalegar afleiðingar af því að vera beitt/ur andlegu ofbeldi til lengri eða skemmri tíma geta orðið slæmar og alvarlegar. Fólk getur jafnvel hætt að stunda vinnu með góðu móti, það missir úr í námi, drekkur meira en góðu hófi gegnir eða notar lyf.
Andleg einkenni geta verið: Kvíði, streita og ótti – Ójafnvægi- Uppnám- Tómleiki, vonleysi og þunglyndi – Skert geta til að hugsa skýrt – Vantraust á eigin dómgreind- Hvatvísi og þráhyggja – Minnisleysi.
Líkamlegar afleiðingar: Verkir í maga, herpingur í hálsi, þrýstingur í brjósti og öndunarerfiðleikar – Höfuðverkir, svimi og innri skjálfti – Þyngdarsveiflur – Svefntruflanir og martraðir
Ólíkar manngerðir sem beita andlegu ofbeldi
Þeir sem beita andlegu ofbeldi, eða gerendur, geta verið heillandi persónur út á við og jafnvel í sambandinu þegar þeir vilja svo með hafa. Enginn er jafn rómantískur og sá sem beitir andlegu ofbeldi þegar hann upplifir höfnun, hann gengur á eftir þér með grasið í skónum ef hann trúir því að það virki, gefur gjafir og lofar öllu fögru. En svo er ekki lengi að bíða þar til ofbeldið tekur sig upp að nýju.
Hér eru nokkur dæmi um einkenni þeirra sem beita andlegu ofbeldi.
Sá kröfuharði
Það er þitt starf að sjá um mig og í því felst að sinna skyldum mínum ef ég stend mig ekki. Ef ég er óhamingjusamur að einhverju leiti hvort sem það tengist sambandi okkar eða ekki, þá er það þér að kenna.
Þú átt ekki að krefjast eins eða neins af mér heldur vera þakklát fyrir það sem mér þóknast að gefa þér.
Ég er hafinn yfir alla gagnrýni.
Ég er mjög ástríkur og gefandi maki og þú ert heppinn að hafa mig!
Sá alvitri
Þú skalt bera óttablandna virðingu fyrir mínum miklu gáfum og þú skalt líta upp til mín vegna þeirra.
Ég veit allt betur en þú jafnvel hvað er þér fyrir bestu.
Skoðanir þínar eru ekki þess verðar að á þær sé hlustað með áhuga eða þær teknar alvarlega.
Sú staðreynd að þú ert stundum ósammála mér sýnir hvað þú hugsar óskýrt.
Ef þú samþykkir bara að ég viti alltaf hvað er rétt þá mun samband okkar verða miklu betra. Líf þitt mun einnig breytast til hins betra.
Ljúflingurinn
Ég er á móti karlrembum og þess vegna er ég ekki ofbeldismaður.
Á meðan ég nota nógu mikið af sjálfshjálpar-frösum trúir enginn að ég sé að beita þig ofbeldi.
Ég get stjórnað þér með því að greina hvernig hugur þinn og tilfinningar virka og hvaða erfiðleika úr æsku þú ert að glíma við. Ég kemst inn í hausinn á þér hvort sem þér líkar betur eða verr.
Mínar tilfinningar eru það eina sem máli skiptir.
Konur ættu að vera þakklátar fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn.
Pyntingameistarinn
Þú ert geggjuð og missir stjórn á þér útaf engu.
Ég á auðvelt með að telja öðrum trú um að það sért þú sem hefur brotið af þér.
Svo lengi sem ég held ró minni getur ekkert af því sem gerist kallast ofbeldi sama hversu grimmdarlegt það er.
Ég veit nákvæmlega hvernig ég á að ná tökum á þér.
Herforinginn
Ég þarf að stjórna öllu sem þú gerir, annars gerir þú það ekki rétt.
Ég veit nákvæmlega hvernig á að gera hvað sem er.
Þú átt ekki að hafa neitt eða neinn annan en mig í lífi þínu.
Ég fylgist grannt með þér til að vera viss um að þú öðlist ekki styrk og sjálfstæði.
Ég elska þig meira en nokkra aðra manneskju (en mér finnst þú viðbjóðsleg).
Grundvallarréttindi í samböndum
Ef þú hefur búið við andlegt ofbeldi þá er ekki víst að þú hafir hugmynd um það hvernig heilbrigt samband lítur út. Hér eru nokkur atriði sem skýra hvernig heilbrigt samband lítur út. Svona á sambandið þitt að vera og ef þér líður ekki svona í samskiptum við maka þinn þá eru 99% líkur á að þu sért ekki í rétta sambandinu.
• Að eiga rétt á velvilja frá makanum.
• Að fá tilfinningalegan stuðning.
• Að hlustað sé á þig og brugðist við óskum þínum með kurteisi.
• Að fá að hafa eigin skoðanir þó svo að maki þinn hafi aðrar skoðanir
• Að tilfinningar þínar og upplifanir séu samþykktar og virtar.
• Að vera beðin/n afsökunar á móðgandi eða særandi ummælum.
• Að fá hrein og bein svör við spurningum sem varða samband ykkar.
• Að vera laus við ásakanir og umvöndun.
• Að vera laus við útásetningar og dóma.
• Að talað sé um störf þín og áhugamál af virðingu.
• Að fá hvatningu.
• Að vera laus við hótanir af öllu tagi, tilfinningalegar og líkamlegar.
• Að vera laus við reiðiköst og bræði.
• Að sleppa við orð sem gera lítið úr þér.
• Að vera beðin/n en ekki skipað fyrir.
Ég mæli heilshugar með því að fólk fari á þetta námskeið, hvort sem það telur sig kannast við eitthvað af því sem hér er upp talið eða ekki. Svo lærir sem lifir og það er á hreinu að við höfum öll gott af því að gera okkur skýra grein fyrir hvað kallast má andlegt ofbeldi og hvað ekki. Við þurfum að læra að þekkja það til að kunna að forðast það því slíkt er alls ekki sjálfgefið.
Þau Linda og Teodór eru mjög einlæg og skýr í því hvernig þau miðla þessum upplýsingum til þeirra sem koma á námskeiðið en bæði styðjast við dæmi úr eigin lífi og deila reynslu sinni með þeim sem á námskeiðið koma. Næsta námskeið verður 14 október og hægt er að skrá sig hér.
Ps. Þú mátt gjarna deila þessari færslu. Hún gæti hjálpað.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.