Stundum vilja konur vera mikið duglegri að sjá það neikvæða en hið jákvæða við eigið útlit.
Tvö börn- dásamlegt. Tiger förin á líkama mínum eftir meðgöngurnar – ekkert mál. Örið eftir að hafa tvisvar farið í keisaraskurð – mér finnst ég bara vera dálítill “badass” með ör eftir þessi afrek.
Já afrek kalla ég börnin mín enda hrikalega stolt af þeim og næstum enn stoltari að hafa komist í gegnum tvær meðgöngur.
Ég velti því þó stundum fyrir mér hvers vegna við getum verið svo viljugar að niðra stallsystur okkar eftir meðgöngu. Við veltum því fyrir okkur hvernig þær grennast svo hratt, skömmumst yfir því að þær líti jafnvel of vel út, of fljótt: “Hey sjáðu þessa, hún er bara strax komin niður í ekkert eftir fæðinguna” eða “Nei hættu nú alveg hún má nú fara að passa sig”.
Það getur verið erfitt að vera mamma. En það er jafnvel enn erfiðara að vera kona í nútímasamfélagi þar sem konur tala um útlit hvor annarar og metast sín á milli. Svo ekki sé minnst á viðmiðin við Hollywood stjörnurnar sem búa flestar yfir nægilegu fé til hafa einkaþjálfara, barnfóstrur og kokka eins og ekkert sé sjálfsagðra (þó ekki allar).
Er ekki betra að byggja upp í kringum sig í staðinn fyrir að rífa niður? Við höfum svo gott af því að vera jákvæðar, nóg er nú af neikvæðninni í kringum okkur.
Alltaf að kíkja í spegilinn
Ég veit ekki með þig en þegar ég fer út að skemmta mér eða á fínni samkomur þá lít ég örugglega hundrað sinnum í spegil til þess að tékka á því hvort að allt sé nú örugglega ekki í lagi. Ég vil ómögulega vera aðalumræðuefnið næsta dag af því að ég var með bauga niður á brjóst eftir svefnlitla nótt, í gömlum skóm, eða með maskarann út um allt andlit!
Við erum ekki allar svona áhugasamar um að tala um það sem mætti betur fara hjá kynsystrum okkar en það leynast samt einhverjar þarna inn á milli. Kannski ert þú ein af þeim og eflaust hefur þú einhverntíma tekið þátt í svona samræðum. Það er bara þannig……því miður.
Face to face
Stundum hefur verið sagt að konur séu konum verstar. Ég vil hinsvegar meina að við séum það alls ekki. Ég elska vinkonur mínar í botn og veit fátt betra en að hitta þær og spjalla saman og þá gildir einu hvort ég er með maskarann niður á kinn eftir svefnvana nótt eða ekki.
Við stelpurnar getum líka verið nokkuð duglegar að rífa okkur sjálfar niður svona ‘face to face’ í speglinum. En munum þá að við þurfum ekki á meiri neikvæðni að halda sem berst út í “alheiminn”.
Byggjum heldur upp í stað þess að rífa niður. Við erum allar einstakar á okkar hátt og við eigum rétt á því að fá að njóta okkar – þó að við séum með bauga og í gömlum skóm 😉
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig