Þú getur haft áhyggjur af svo ótal mörgu en vittu að þær gera þér oftast meira mein en hitt.
Áhyggjur af fjármálum eru til að mynda óþarfar. Fjármál eru þess eðlis að það er ekkert annað hægt að gera en að gera eitthvað í þeim.
Flestar stofnanir eru allar af vilja gerðar til að mæta þér, gera áætlanir og svo framvegis. Svo er það þitt verkefni að draga úr útgjöldum og leita fleiri leiða til að afla tekna.
Það er sama hvað þú hugsar mikið um þetta…
Þú lagar ekki neitt með því að hafa áhyggjur. Þú lagar hlutina með því að gera eitthvað í þeim eða breyta um viðhorf.
Hér eru nokkur góð ráð, fengin héðan og þaðan, sem reynast vel í baráttunni við bölsýni, áhyggjur, þreytu og streitu:
1. Settu þær í krukku
Þetta virðist kannski svolítið einföld aðferð en flestir sem hafa prófað vita að það hjálpar verulega að skrifa áhyggjuefnin niður á blað. Um leið og þú ert búin að því geturðu rifið blaðsíðuna úr, stungið henni ofan í krukku og skrúfað lokið fast á. Þetta hjálpar þér að líða eins og þú hafir losað þig við málið og lokað því.
2. Horfðu á björtu hliðarnar
Fólk sem er jákvætt lifir lengur en þau sem eru þyngri í lund. 15 ára rannsókn með 100.000 konum leiddi í ljós að glaðværar konur lifa að meðaltali 14% lengur en þær sem eru fullar af svartsýni og bölmóð. Til að líða betur í huganum getur verið gott að sjá sig fyrir sér í hengirúmi á fallegum stað í sólinni eða hvar sem er sem þér hefur liðið vel. Varðveittu þessa mynd og leitaðu að henni í huganum þegar þín innri nöldurskjóða bankar upp á og vill taka völdin. Þetta hefur slakandi áhrif á líkamann sem gerir það erfiðara fyrir hugann að snúa sér að neikvæðninni.
3. Notaðu austrænar aðferðir
Áhyggjur, bölmóður og svartsýni eru ekki bara niðurdrepandi fyrir andann, slíkt hugarfar hefur einnig mjög slæm áhrif á líkamann og heilsuna. Langvarandi áhyggjur og svartsýni munu alltaf taka toll af líkamlegri heilsu.
Eftirfarandi listi kemur frá Dr. Brent Bauer, sérfræðingi við Mayo heilbrigðisstofnunina í Bandaríkjunum.
Við: Bakverkjum reyndu: Jóga
Við: Háu kólestrólmagni reyndu: Qigong
Við: Þunglyndi reyndu: Tónlistarþerapíu, qigong og jóga
Við: Átröskunum reyndu: Hugleiðslu, jóga
Við: Frjósemi reyndu: Hugleiðslu, jóga
Við: Hjartaheilsu reyndu: Djúpöndun, qigong, jóga
Við: Styrkara ónæmiskerfi: Öndun, möntrur, hugleiðslu og qigong
Við: Svefnleysi reyndu: Nálastungur, “visualisation”, jóga
Við: Liðverkjum reyndu: Tónlistarþerapíu, qigong, jóga
Við: Mígreni reyndu: Nálastungur, jóga
4. Farðu með ÆÐRULEYSISBÆNINA.
Æðruleysisbænin er fyrir alla, líka fólk sem hefur aldrei komið nálægt 12 spora samtökum enda er þetta ótrúlega flott og öflug bæn sem getur losað um óþarfa streytu sé hún sögð frá hjartanu.
Guð gefi mér Æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
Kjark, til að breyta því sem ég get breytt
og Vit til að greina þar á milli.
Það er kúnst að þekkja muninn á því sem maður getur haft áhrif á og hinu sem maður getur ekkert að gert.
Þú getur til dæmis haft áhrif á eigin fjármál og sitthvað fleira af efnisheiminum en það er sjaldnast hægt að hafa mikil áhrif á aðra einstaklinga, hvað þeir gera eða hvert þeir fara. Þú hefur kannski miklar áhyggjur af makanum, unglingnum þínum eða mömmu þinni en vittu að það er svo lítið sem þú getur gert. Þessvegna er best að reyna að SLEPPA TÖKUNUM og draga djúpt andann. Segja svo við sjálfa þig “Allt er eins og það á að vera og allt fer vel.” – og vittu, í 99% tilfella fer allt vel svo hversvegna að eyða orkunni í þessar áhyggjur þegar þú getur hvort sem er engu breytt?
5. Hvað er að gerast NÚNA?
Þegar hugurinn fer með þig á harðaspretti inn í áhyggjurnar skaltu prófa að beina athyglinni að andartakinu. Hvar ertu stödd akkúrat NÚNA? Hvernig líður þér þessa stundina. Hvað er að gerast í kringum þig? Hefurðu í raun ástæðu til að líða illa og hafa áhyggjur eins og staðan er nákvæmlega núna? Hvort sem þú situr uppi í rúmi, í sófanum eða við eldhúsborðið með tölvuna þína…
Er í raun ekki bara allt í góðu?
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.