Ég náði þeim merka áfanga í sumar að fá þrjár stöðumælasektir á einni viku. Dettur ekki í hug að kenna neinum um nema sjálfri mér.
Stundum var ég ekki með klink og ákvað bara að taka sénsinn en oftast nær skellti ég fimmtíu kalli í mælinn því að ég ætlaði bara að skreppa í búðina í smá stund. Smá stund hjá mér er teygjanlegt hugtak, sem þýðir að fimm mínútur geta orðið að klukkutíma, sérstaklega þegar að ég sé eitthvað fallegt sem gleður augað.
Auk þess finnst mér það að keyra um á jeppa í yfirstærð Reykjavík álíka tilgangslaust og eiga Schefferhund en enga kind.
Þar sem ég sá stöðumælasektirnar hrannast inn á heimabankann ákvað ég að nú þyrfti ég að grípa í taumana áður en að það mundi stefna í óefni. Nú skyldi stöðumælakarmað pússað upp og gert glansandi fínt.
Ég byrgði mig upp af gylltu klinki og skellti mér í heilsubótargöngu í miðbæ Reykjavíkur. Í hvert sinn sem ég sá blikkandi mæli laumaði ég smá klinki í mælinn og einhverra hluta vegna hlýnaði mér smá í sálinni.
Reyndar viðurkenni ég fúslega að ég sleppti því að splæsa gullinu mínu í stöðumæla hjá ofvöxnum gljáandi jeppum sem kosta meira heldur en íbúðin mín. Bara útaf prinsippinu.
Auk þess finnst mér það að keyra um á jeppa í yfirstærð Reykjavík álíka tilgangslaust og eiga Schefferhund en enga kind. Og viti menn! Ég hef ekki fengið eina einustu stöðumælasekt síðan að ég byrjaði að deila klinkinu mínu með ókunnugum.
Stöðumælakarmað er orðið glansandi fínt og ég held því ennþá við með því að gauka smá aur í hungraða stöðumæla af og til.
Mæli með þessu!
Guðrún Hulda er flugfreyja sem hefur stundað nám við félagsfræði og félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún er fagurkeri og nautnaseggur sem hefur gaman af öllu því sem gleður augað, eyrað, kroppinn, andann og sálina. Guðrún er vog.