Mitt faðirvor
Ef öndvert allt þér gengur
og undan halla fer,
skal sókn í huga hafin
og hún mun bjarga þér.
Við getum eigin ævi
í óskafarveg leitt
og vaxið hverjum vanda,
sé vilja beitt.
Þar einn leit naktar auðnir
sér annar blómaskrúð.
Það verður sem þú væntir.
Það vex sem að er hlúð.
Þú rækta rósir vona
í reit þíns hjarta skalt
og búast við því besta
þó blási kalt.
Þó örlög öllum væru
á ókunn bókfell skráð,
það næst úr nornahöndum
sem nógu heitt er þráð.
Ég endurtek í anda
þrjú orð við hvert mitt spor:
Fegurð, gleði, friður –
mitt faðirvor.
Þetta fallega ljóð skrifaði skáldið Kristján frá Djúpalæk (f. 16. júlí 1916 í Skeggjastaðahreppi í N-Múlasýslu – d. 15. apríl 1994 á Akureyri) og kallaði sitt Faðirvor.
Ljóðið finnst mér sérlega fallegt því boðskapurinn er svo góður. Hann segir okkur að viðhorfið til lífsins sé það eina sem skipti í raun máli, bjartsýni og gleði…
Í hugleiðingum sínum sem sjá má hér að neðan talar hann jafnframt um íhugun og bænir en sjálfur stundaði hann það að fara með ljóð og stef til að róa huga sinn og beina honum inn á réttar brautir.
Það er eflaust margt vitlausara en að leggja Mitt Faðirvor á minnið og þylja upp þegar á móti blæs hvort sem er í hljóði eða upphátt. Jafnvel segja í hverju skrefi; fegurð, gleði, friður þegar stigið er til jarðar og stunda þá um leið einfalda gönguhugleiðslu. Kristján vissi greinlega sínu viti og boðskapurinn í ljóðinu hans er frábær. Hver er sinnar gæfu smiður.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.