Umburðarlyndi er þarft viðhorf til að höndla þolraunir lífsins og okkar daglega líf án þess að tapa jafnvæginu. Þetta átti upprunalegi pistillinn að fjalla um, en ég get ekki skrifað um það. Ég veit ekki hvað þarf til. Ég er að tapa mínu jafnvægi og ég veit ekki hvað skal gera.
Hvenær er nóg komið?
Ég hef alltaf séð sjálfa mig sem mjög umburðarlynda manneskju. Of umburðarlynda jafnvel.
Fyrir einhverjum árum leyfði ég fólki að valta algjörlega yfir mig áður en ég áttaði mig á því að nú væri nóg komið –en nú er ég aftur í stöðu þar sem ég hreinlega veit ekki hvort og hvenær er nóg komið.
Ég er að vinna með alla yoga-tengda hluti sem gætu hjálpað. Ég er að endurlesa Ný Jörð (e.A New Earth, frábær bók ef þú hefur ekki kíkt á hana), hugleiða, skoða og finna tilfinningar mínar og sleppa takinu af þeim.
Sleppa takinu, sleppa takinu, sleppa takinu. Hversu lengi á ég að sleppa takinu? Og þarf ég að sleppa takinu á öllum mínum tilfinningum og atvikum til að vera góður yogi? Hvenær ávarpa ég aðstæðurnar og segi:,,NÚ ER NÓG KOMIÐ!?’’
Ég hef lesið þar sem haft er eftir fleirum en einum gúrú að leyndardómurinn um leiðina að innri frið og hamingju sé að það skiptir þá engu máli hvað gerist. Þeir fást ekki um það. Þeir þekkja sannleikann og vita að sannleikurinn er bara sannleikurinn og honum getur ekki verið breytt eða hann skemmdur af einhverju eða einhverjum. Svo sama hvað hver segir eða gerir þá hrærir það ekki við þeim. Ég trúi á sannleikann. Ég veit að honum getur ekki verið breytt. En samt vil ég verja hann.
Hvað á ég að gera?
Ég las í bókinni Ný jörð (e.A New Earth) að eina leiðin til að takast á við egóið í öðrum sé að hundsa það algjörlega. Ég get næstum alltaf séð hvenær egóið í öðrum er að störfum. Svo ég veit hvenær skal hundsa það. Ég veit hvenær ég á að sleppa takinu. En svo rann það upp fyrir mér að ég hef verið að einblína svo stíft á annara manna egó að ég hef ekki séð það í sjálfri mér.
Ég hef verið að reyna að losna við eitthvað frá öðrum og algjörlega gleymt að staldra við og líta á sjálfa mig. Líta aðeins inn á við. Ég hef ekki komið neinu í verk hjá sjálfri mér af þessu sem ég hef lesið eða hugleitt um, fært það yfir á mitt eigið egó.
Þú hefur ef til vill heyrt að það sem angrar þig í fari annara sé einfaldlega endurspeglun á því sem angrar þig í þínu eigin fari. Ég býst við að ég sé að læra sannleikann um það. Til að virkilega geta þroskast sem einstaklingur verðum við að þora að takast á við okkur sjálf en það virðist það vera eitt það allra erfiðasta sem við gerum. Hvað ef í hvert skipti sem við viljum dæma einhvern eða einhverjar aðstæður, þá snúum við fingringum við, bendum á okkur sjálf og spyrjum okkur heiðarlega hvernig við getum fært þessa gagnrýni yfir á okkur sjálf. Hvar í okkar lífi getur þessi gagnrýni átt við, hvernig getur það hjálpað okkur að vaxa sem einstaklingar?
Ef til vill átti Ghandi sjálfur einhverntíman í erfiðleikum með að færa sína eigin visku yfir á sjálfan sig. Hver veit…?
Erna er vatnsberi sem má ekkert illt sjá. Hún býr í stórborginni Bogotá í Kólumbíu ásamt manni sínum og syni. Erna er stúdent í tungumálum og samtímadansi, er yogakennari hjá Yoga Alliance en hún er jafnframt útlærður ferðamálafræðingur frá Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Erna talar fimm tungumál og þrjú af þeim daglega. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, fjölskylda, hugur og heilsa.