Áður en algjört offramboð varð af lífstílsráðum frá allskonar misvitrum velmeinandi gúrúum á internetinu sat Oprah Winfrey efst á Ólympusfjallinu og boðaði að næst ættum við að kynna okkur núvitund, ganga rösklega á hverjum degi (helst 10.000 skref), hætta að borða sykur, hugleiða, vinna úr áföllunum og svo framvegis og svo framvegis.
Oprah er hinn eini sanni áhrifavaldur og uppruni allra lífstílsdrottninga. Hún er queen Oprah og ég vona að hún verði forseti Bandaríkjanna einhvern daginn því hún hefur sannarlega haft jákvæð og uppbyggileg áhrif á milljónir manna og kvenna um veröld víða, og það áratugum saman. Hún hafði meira að segja einu sinni þau áhrif á mig að ég sagði upp strák eftir að hún tók viðtal við höfund bókarinnar „He’s just not that into you“ í þættinum sínum. Bein áhrif. Takk Oprah! <3
Blaðamaðurinn Gene Siskel spurði Opruh einhverntíma í viðtali hvað hún væri algerlega sannfærð um. Eða eins og hann orðaði það: „What do you know for sure?“. Oprah tók spurningunni mjög alvarlega og velti henni rækilega fyrir sér. Svo rækilega að eftir andlát Siskel gerði hún reyndar spurninguna að sinni eigin og beindi að þeim sem hún tók viðtöl við í þættinum sínum en þetta er einskonar kjarnaspurning um það hvaða lærdóm maður hefur dregið af lífinu.
Oprah svaraði blaðamanninum því að hún uppskæri yfirleitt ný andleg svör í hverjum mánuði (skiljanlega, leitandi kona) en hún rétti þó Siskel þennan góða lista sem ég er að hugsa um að prenta út í plakatastærð og líma í loftið fyrir ofan rúmið mitt. Kannski ætti ég að láta prenta út pappaspjald með Opruh í fullri stærð og hafa hana inni í eldhúsi hjá mér til að minna mig á góða siði og visku? Hún er ekki verri gúrú en hver annar. Svo mikið er víst.
Þetta er Oprah handviss um…
(og þetta finnst mér um það)
1. Það sem þú gefur af þér kemur undantekningalaust alltaf til baka í einni eða annari mynd.
Ég er ekki alveg sammála. Stundum þarf að hringja í Karma og láta hana vita að hún þurfi að tékka á einhverju eða einhverjum.
2. Þú ákveður þitt eigið líf. Ekki láta aðra skrifa handritið fyrir þig.
Well, stundum erum við bara leiksoppar örlaganna en það er klárlega mikið til í þessu. Ef maður veit ekki hvert maður er að fara þá endar maður þar sem aðrir vilja að maður sé og það er ekki endilega manni sjálfum í hag. Rétt Oprah.
3. Það sem var gert á þinn hlut í fortíðinni hefur ekkert vald yfir þér í dag. Þú ert eina manneskjan sem gefur valdið.
Ef fólk drífur sig í áfallavinnu þá getur fortíðin misst takið en auðvitað er það alltaf maður sjálfur sem tekur upp símann og hringir í þerapistann.
4. Þegar fólk sýnir þér úr hverju það er gert, skaltu trúa því strax.
Rétt. Vildi að ég hefði alltaf vitað þetta.
5. Áhyggjur eru tímasóun. Notaðu orkuna frekar í að bæta úr því sem veldur þér áhyggjum.
Er algjörlega sammála þessu. En í áhyggjukasti er samt gott að sjá fyrir sér allra verstu stöðuna, skrifa hana niður og sjá þá að hún er kannski hreint ekki svo slæm.
6. Það er meiri kraftur í því sem þú trúir en því sem þú óskar eða lætur þig dreyma um. Þú ert það sem þú trúir.
Ég skil hvað þú meinar Oprah. Geir Ólafs og Lenocie skilja þetta líka.
7. Þú þarft ekki að kunna aðra bæn en að segja ‘þakka þér fyrir’. (Eckhart Tolle).
Líklegast er gott að segja þetta oft á dag. Við almættið og alla hina.
8. Þína eigin persónulegu hamingju má mæla í jöfnu hlutfalli við ástina sem þú gefur öðru fólki.
Hvar finn ég mælinn?
9. Ef þér mistekst þá eru það skilaboð um að þú eigir að einbeita þér að einhverju öðru.
Mögulega. Eða reyna aftur. Bara alls ekki of oft. Einu sinni í viðbót ætti að duga.
10. Þó þú takir ákvörðun sem allir í kringum þig segja að sé röng þá mun heimurinn samt ekki farast.
Sammála. Og það er betra að virða innsæið og láta á það reyna en að svekkja sig á því að hafa ekki fylgt því seinna.
11. Treystu innsæi þínu – það lýgur ekki.
Einmitt.
12. Elskaðu sjálfa/n þig og lærðu svo að gefa öðrum ást hvar sem þú kemur.
Reyni á hverjum degi.
13. Láttu ástríðuna ráða því hvaða starf þú velur þér í lífinu.
On it.
14. Leitaðu leiða til að fá borgað fyrir það sem þér finnst skemmtilegast að gera. Þá verða launin bara eins og bónus.
On it.
15. Ást er ekki sársaukafull. Hún lætur manni líða vel.
Og ef hún gerir það ekki – Þá tak staf þinn og gakk eins fljótt og völ er á.
16. Hver dagur er nýtt upphaf.
Nýtt tækifæri.
17. Að vera móðir er erfiðasta starf í heimi. Konur um allan heim verða að koma þessu á hreint.
Það er krefjandi en ekki endilega svo erfitt. Þriðja vaktin hinsvegar… HÚN er erfið, og konur þurfa að gera körlum það ljóst og skipa þeim að taka þátt ellegar leggja niður störf.
18. Efasemdir þýða einfaldlega ekki: ekki svara, ekki aðhafast neitt, ekki ana að neinu.
Góður punktur.
19. Þegar þú veist ekki hvað þú átt að gera skaltu vera kyrr og svarið kemur til þín af sjálfu sér.
Þetta myndi ég flokka undir gjafirnar sem koma með því að stunda hugleiðslu. Að vera kyrr. Að sitja í þögn og leyfa svarinu, eða svörunum, að koma. Hugleiðsla er stórkostleg fyrirbæri sem er vanmetið af mörgum. Svo einfalt og auðsótt og ótrúlega árangursríkt. Kostar ekkert. Vildi að ég myndi muna eftir henni daglega en ég geri það ekki. Kannski kemur það með aldrinum.
20. Erfiðleikarnir vara ekki að eilífu.
Sem betur fer.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.