Að geta gert mistök án þess að lemja okkur niður fyrir það hljómar mjög vel. Auðvitað viljum við alltaf gera okkar besta á öllum snertiflötum lífsins en við, og allir aðrir, komumst þó ekki hjá því að gera suma hluti EKKI 100%.
Að ætlast til fullkomnunar af þér og öðrum er óraunhæf krafa og afneitum á raunveruleika okkar.
Að sætta okkur við ófullkomnun raunveruleikans þýðir ekki að við hættum að setja okkur markmið og skýra sýn heldur það að við temjum okkur að byggja okkur raunhæf markmið og viðmið. Mörg okkar ná ekki markmiðum vegna þess að þau byggja á óraunhæfum viðmiðum, ef við lækkum viðmiðin og sættum okkur við smá ófullkomnun tekst okkur mun betur að ná þangað sem við ætlum okkur.
Hvernig náum við að brjóta upp vítahring fullkomnunaráráttunnar?
1. VANI
Gott er að byrja á því að skoða hvaða vana við erum dottin í og koma auga á þætti sem þarf að breyta. Að gera sér grein fyrir og viðurkenna eitthvað vandamál hjá þér krefst æðruleysis, þú þarft að viðurkenna að þú eða líf þitt er ekki fullkomið.
VARÚÐ: Ekki detta í egóið sem segir þér að EKKERT sé að og engu þurfi að breyta.
2. HUGREKKI
Temdu þér hugrekki, að leyfa þér vera ófullkomin(n) og náðu þannig markmiðum þínum. Ótti gæti verið sú hindrun þín að komast ekki lengra. Að óttast og forðast mistök verður oft yfirþyrmandi og mikilvægara en sú þrá að ná markmiðinu. Þeir sem brjóta niður markmiðið (með ófullkomnun að markmiði) og setja sér niður sértæk skref eru líklegri að ná alla leið.
3. HUGSANAMYNSTUR
Þau sem sætta sig við ófullkomnun eru mun líklegri til að temja sér jákvæðara hugsanamynstur. Þau sem einblína á fullkomnun hafa svokallaðann „ALLT eða EKKERT“ hugsunarhátt. Þannig að ef hún gerir smá mistök eða klikkar aðeins á verkefninu hættir hún við ALLT, en sú sem sættir sig við smá mistök heldur áfram í átt að markmiði sínu.
Dæmi: Þú ætlar að hætta að borða sælgæti og gengur vel með það í heila viku en dettur svo ofan í nammiskálina; sá/sú sem vill fullkomnun hættir nammiátakinu því þetta er misheppnað en sá sem sættir sig við ófullkomnun heldur áfram í ekkert-nammi átakinu og stendur sig vel með nokkrum mistökum samt sem áður.
„Stærstu mistökin eru hjá þeim sem gera EKKERT í stað þess að gera bara LÍTIÐ í senn” Edmund Burke.
4. VILJASTYRKUR
Sá eða sú sem lítur jákvætt á ófulkomnun gerir sér grein fyrir því að verkefni lífsins fela í sér sorgir og sigra og viðkomandi á auðveldara með að koma sér aftur á réttu brautina. Að breyta til dæmis slæmum vana er ferli sem felur í sér
nokkur stig, t.d. mistök, vitlausar ákvarðanir, bakslag og vonleysi.
Ef þú ert fullkomnunarsinni eru meiri líkur á því að þú horfir á breytingu sem stundarákvörðun og að breytingin eigi að eiga sér stað strax. Galdurinn er að sýna mistökunum þolinmæði og þrautseigju. Hætta niðurrifi og sjálfsgagnrýni því það dregur úr viljastyrk. Jákvæðir ófullkomnunarsinnar eru mun líklegri til að halda sér við markmiðin sín án þess að skammast yfir því sem fer úrskeiðis í áttina að markmiðinu. Að sætta sig við ófullkomnun í raunveruleikanum er streituvörn. Vertu vakandi og temdu þér innri rödd sem segir:
„Ég þarf ekki að vera fullkomin(n) eða gera allt 100% rétt“.
Skapaðu þér betra líf og leyfðu því að vera ófullkomið því þannig á lífið einmitt að vera!
Ragnheiður Guðfinna er fædd árið 1980. Hreinræktaður Vestmannaeyingur í húð og hár. Hún hefur í gegnum tíðina sinnt ýmsum störfum til sjávar og sveita, meðal annars tekið á því í netavinnu og humarvinnslu, sinnt fyrirsætustörfum og sölu -og markaðsmálum svo sitthvað sé nefnt en í dag starfar hún sem ráðgjafi í vinnusálfræði hjá Stress.is. Ragnheiður á tvö börn og á fyrirtaks mann sem tekur rómantíkina alvarlega.