Hún keyrir af stað úr vinnunni, verður að drífa sig svo hún verði ekki of sein að sækja níu mánaða gamlan soninn til dagmömmu.
Þegar þangað er komið skríður ljóshærður drengur á móti henni og gleði hans er svo hrein og tær því mamma er komin. Hún brosir, tekur soninn í fangið og þráir það heitt að geta endurgoldið gleðina – en hún getur það ekki því hún á hana ekki til, amk ekki til hans þó hún óski einskis heitar.
Hún tekur drenginn út í bíl og saman fara þau að versla í matinn. Drengurinn, með sína einlægu og barnslegu forvitni skoðar og reynir að snerta það sem hann sér því í þessari veröld eru margir forvitnilegir hlutir. Hann snýr sér aftur í sætinu í innkaupakörfunni og reynir að ná í eitthvað gott að smakka. „Uss – má ekki,“ kallar hún.
„Af hverju getur hann aldrei verið kyrr“ hugsar hún og óskar þess eitt augnablik að hún ætti ekkert barn – væri bara ein, laus og liðug. Hún roðnar hálf af skömm yfir hugsunum sínum og þakkar fyrir að enginn viti hvað þar fer fram, þetta myndi enginn skilja.
Hún dröslar innkaupapokunum inn í eldhús og leggur drenginn og vörurnar frá sér. Eiginlega ætti hún að setjast með drengnum og leika örlítið við hann, tengjast honum. En kannski hún geri það bara á morgun, það var svo margt annað að gera í dag, vinnan bíður, eins gott að standa sig annast mun hún ekki fá stöðuna, þriðja árið í röð en reyndar leikur hún næstum aldrei við hann, hún bara finnur ekki tenginguna – hún finnur ekki neitt.
„Af hverju getur hann aldrei verið kyrr“ hugsar hún og óskar þess eitt augnablik að hún ætti ekkert barn – væri bara ein, laus og liðug.
Eiginlega hafði þetta verið svona frá fæðingu drengsins. Stundum komu augnablik sem hún fann þessa móðurtilfinningu sem allir voru að tala um en oftast fann hún ekki neitt. Hún var ómöguleg móðir.
Þegar hún gengur inn ganginn, sér hún spegilmynd sína í speglinum. Hún sér unga konu, myndarlega en þreytulega með dökkt sítt hár. Hún hafði fitnað töluvert á meðgöngunni og hataði sjálfa sig fyrir það. Af hverju gat hún ekki druslast í ræktina? Ef hún hefði ekki eignast drenginn..
Ungar mæður sem upplifa ekki jákvæðar tilfinningar í garð barnsins síns þurfa ekki að örvænta, þær eru ekki einar. Það þýðir ekki að þær séu slæmar mæður eða slæmar manneskjur. Margt getur legið að baki og það hjálpar að fá aðstoð og ræða við aðra í sömu stöðu. Ef þú finnur til tilfinningalegrar einangrunar þá mundu að það er ekkert nýtt undir sólinni.
Fyrsta skrefið er að afhjúpa og draga þessi tabú fram í dagsljósið. Þá verða þau ekki tabú lengur – og þú kemst nær sjálfri þér.
Með kveðju, Ragnhildur Birna Hauksdóttir Fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá LausninniLausnin eru sjálfsræktarsamtök, stofnuð í upphafi árs 2009. Samtökin sérhæfa sig í meðvirkni og fíkni-tengdum þáttum. Hér er um að ræða samtök sem einsetja sér að veita framúrskarandi aðstoð fyrir þá sem ekki eru frjálsir í eigin lífi vegna ótta, kvíða, takmarkaðs tilfinninga læsis eða lágs sjálfsmats. Frelsi lífinu og í samskiptum við aðra er grunnstoð hamingjunnar og teljum við frelsis þörf okkar eitt mikilvægasta og stekasta afl lífsins. Ef við erum ekki frjáls í samskiptum, hjónabandi, vinnu, með fjölskyldu eða kunningjum þá höfum við ekki getuna til njóta allra þeirra fegurðar sem lífið og tilveran hefur upp á að bjóða. Lífið er þess virði að lifa því, ef þú sérð það ekki eða upplifir það ekki þá gætir þú átt við meðvirkni að stríða.