Ég er jafngömul nefinu á mér og aðeins eldri en tennurnar. Í gegnum þetta líf hef ég lært sitt lítið af hverju en eitt af er því þessi einfalda regla: Maður segir engum að bera virðingu fyrir sér.
Með öðrum orðum. Þú getur sjaldnast krafist þess af annari manneskju að hún virði þig eða mörkin þín, – þú verður að setja þau sjálf með því sem þú GERIR, ekki því sem þú segir.
Ef fólk er á annað borð þannig innstillt að því finnist sjálfsagt að koma fram af dónaskap og vera með leiðindi við aðra (þar á meðal þig) þá munt þú ekki uppskera neitt með því að segja manneskjunni að virða þig.
Það er alveg pointless að hefja upp raustina og segja hátt og snjallt: „Nú þarft þú að bera virðingu fyrir mér!” – Slíkt gagnast ekki vitund.
Þú þarft að setja mörk og láta verkin tala.
Ég er reyndar ekki að tala um þagnarstjórnun heldur að nei þýði nei og að ef þú hefur einu sinni sagt nei og meint það, þá þýði engar undantekingar.
Til dæmis eins og að afþakka boð í veislu eða segja nei við einhverju sem er ætlast til af þér en er engin skylda. Að geta sagt nei með góðri samvisku, við hverju sem er, eru ekki bara heilbrigð samskipti heldur býr þetta líka til heilbrigðari og sterkari sjálfsmynd.
Persónulega fékk ég ágæta æfingu í þessu þegar ég, í heil fjórtán ár eða fimmtán ár, drakk hvorki áfengi né borðaði kjöt. Lifði lífinu hálfpartinn eins og búddamunkur og þurfti margoft að afþakka eitthvað sem var hreinlega ætlast til að ég gerði, -þrátt fyrir að mig langaði ekki til þess.
Vin sínum skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf.
Hlátur við hlátri skyli höldar taka
en lausung við lygi.–Hávamál
Ef þú upplifir allt í einu að þú sért orðin reið eða pirruð út í einhverja manneskju í lífi þínu, en áttar þig ekki alveg á því hvers vegna, þá er mjög líklegt að þú hafir leyft henni að fara yfir mörkin hjá þér. Oft er þessi pirringur merki um að þú verðir að skoða málið betur.
Þinn besti verjandi ert þú sjálf/ur. Það kemur enginn til með að búa til mörk í kringum þig, sem ekki má fara yfir, nema þú.
Stattu með þér og ef fólk er t.d. með skæting eða leiðindi við þig, launar þér ekki greiðvikni eða ætlast til að þú gerir eitthvað sem þú veist og finnur að þig langar ekki eða þú vilt ekki gera, – Þá skaltu einfaldlega ekki gera það.
Og ef þú heldur að það muni hellast yfir þig eitthvað drama fyrir að segja nei þá skaltu prófa að hugsa þetta alveg til enda.
Hvað er svosum það versta sem gæti gerst? Að manneskjan myndi hætta að tala við þig? Og ef svo… er það ekki bara frábært? Það er til svo mikið af góðu og skemmtilegu fólki í heiminum. Við höfum ekkert að gera í félagsskap við dónalegt fólk sem sýnir samferðafólki sínu vanvirðingu. Við eigum það öll skilið að umgangast þau sem virða okkur og vilja okkur vel. Lífið er allt of stutt fyrir leiðindapúka, hvort sem við höfum þekkt þá í þrjár mínútur, þrjú eða þrjátíu ár.
Ég segi bara eins og langamma mín úr Dýrafirði, – „Þeir geta étið það sem úti frýs.”
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.