Stundum finnst mér alveg nóg um eigin hégóma. Ég er Pjattrófa, það segir sig sjálft, ég hef áhuga á pjatti, dekra við mig, geri mig fína og reyni að koma vel fyrir. Margir kalla það hégóma.
En það er svo margt sem mér finnst sérlega hégómagjarnt og særir blygðunarkennd mína:
Ókurteisi, yfirgangur og ofmat á eigin kostum
Þetta fer í mínar fínustu. Ég legg mig fram um að koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig og lít ekki á sjálfa mig sem yfir eða undir neinn hafinn.
Sleikjuskapur
Mér er fyrirmunað að sleikja fólk upp, ég kann ekki að vera fölsk og segja við fólk hluti sem það vill heyra til þess að því muni líka við mig. Ef ég hrósa einhverjum þá meina ég það. Ef ég hef ekkert gott að segja við manneskju þá þegi ég.
Líkams-óvirðing
Ég get ekki skilið að fólk fari illa með líkama sinn vegna hégóma, svelti sig eða borði um of, ofþjálfi hann eða hreyfi sig ekki neitt eða baða sig í sólböðum sem skaða húðina. Það þurfa allir að bera virðingu fyrir líkama sínum, hann er sá eini sem þú átt!
Sjálfumgleði
(Narcisissm) Hvað er málið með að vera stanslaust að taka myndir af sjálfum sér og birta á Facebook? Eða upphefja sjálfan sig? Ég skil ekki fólk sem ítrekar við aðra hvað það er klárt, fallegt, skemmtilegt eða fyndið. Eigum við hin ekki að dæma um það?
Er þetta kennt á sjálfshjálparnámskeiðum eða missti ég af þessum áfanga í menntó? Það er gott að hafa sjálfstraust en á maður að þurfa sannfæra aðra um eigið ágæti með svona tali eða leyfa fólki að komast að því sjálft?
Merkja-snobb
Því dýrara því betra? Ég er ekki á þeirri skoðun. Mér er sama hvort stellið þitt sé Ittala eða Ikea, hvort kjólinn þinn kostaði 5 eða 50 þúsund og sum Nivea krem eru jafn góð og rándýr merkjakrem. Ég kann að meta góða hönnun og gæði en verð fer ekki alltaf saman við það og góðan smekk er ekki hægt að kaupa.
Afbrýðissemi
Er til tilgangslausari tilfinning? Afbrýðissemi er verst fyrir mann sjálfan. Óþarfa orkueyðsla með enga útkomu aðra en eigin vanlíðan. Við verðum að vera ánægð með það sem við höfum og gera gott úr því, samgleðjast fremur en að öfunda.
Hégómagirnd snýst um svo mikið meira en útlit, ég þekki fólk sem ekki hugsar sérlega um útlitið en er þó uppfullt af hégóma. Finnst það yfir aðra hafið og svífst einskis að valta yfir annað fólk til að fá það sem það vill.
Svo þekki ég fólk sem hugsar um útlitið, hreyfir sig, puntar og lítur ávallt vel út en er nánast alveg laust við hégóma og kemur vel fram við aðra.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.