Við sátum tvær með kaffibollana hér í morgunsárið, hittumst af tilviljun í göngutúr, hún hálf önug og leið, ég bara þokkalega sátt enda hafði ég einsett mér að njóta þess að fara ekki í vinnuna þessa páska, vera í fríi og hafa það gott.
Kaffið var farið að kólna og var í raun ekkert spes gott, þessi sem hellti upp á könnuna var held ég líka ekki alveg vel vaknaður þegar við mættum. Aðal kaffivélin var víst biluð þannig að kaffigaurinn þurfti að hella upp á kaffi – og hafði ábyggilega ekki gert það áður, mamma hans hefði betur kennt honum það áður en hann flutti að heiman. Hann gæti allavega aldrei heillað neina dömu upp í til sín með þessu kaffi – ekki eins og þessi í auglýsingunni þar sem allt getur gerst eftir góðan kaffibolla.
Hann var nú smá kjút, gaurinn, sérstaklega þegar hann kom með kaffið til okkar og brosti hálf vandræðalega yfir þessu með aðalvélina, sagði eigandann vera á leiðinni til að bjarga málunum.
Við María vorum einu sinni að vinna saman, þá var hún alltaf hress og kát, bara lang flottust af okkur stelpunum, það var alltaf allt að gerast þar sem hún var.
Nú sátum við hér og hún alveg búin á því. Fáir vinir, í raun bara einhverjir kunningjar, engir almennilegir vinir sem hún gæti gert eitthvað skemmtilegt með án þess að þurfa að gera eitthvað fyrir þá í staðinn. Gæinn sem hún hafði verið með var farinn, hann reyndist bara ömurlegur þegar á reyndi. Það var allt að. Þó hún nefndi það ekki þá vissi ég að hún hafði ætlað í meðferð í fyrra en það hafði gengið eitthvað brösulega. Það var nú kannski ekkert skrýtið þar sem gaurinn sem hún var með var í engu betri málum en hún sjálf. Eins gott að þau voru ekki lengur saman.
Hún þarf að vilja það sjálf
Nú var kaffivélin komin í gang og við komnar með ilmandi kaffi, rétt eins og við værum komnar á kaffibar í Róm. María var að fá málið. Hún væri hálf þreytt, sagðist vera á hálfgerðum bömmer því það gengi ekkert upp hjá sér þessa dagana. Í síðustu viku hafði ætlað að fara út að skemmta sér en uppgötvaði þá að hún ætti enga almennilega vini. Enga sem hún gat hringt í og beðið um að koma með sér eitthvað út á lífið.
Jú, hún þekkti fullt af fólki en núna væri hún eiginlega alveg hætt að fá sér í glas (ok, þar kom hún inn á það – ) og þá nennti hún ekki að fara í partý með hinum sem ætluðu sér að detta í það. Þetta væri bara ekkert auðvelt. Allt væri hálf ömurlegt. Skrýtið að þegar maður reyndi að taka sér tak og byrja upp á nýtt þá færi maður að hugsa að hin leiðin væri nú bara auðveldari.
NEN hún hefði fundið að sú leið gengi ekki lengur, hún var búin að missa tökin á flestu. Sjálfsvirðingin komin í þrot, sjálfstraustið ekkert. Það eina sem var nóg af voru ásakanir í eigin garð fyrir alla vitleysuna, já og það hvað hún væri sjálf ömurleg að geta ekki hætt. Hún var orðin snillingur í einu, að ljúga bæði að öðrum og sjálfri sér.
Ég sagði ekki neitt, leyfði henni bara að tala. Mig langaði til að hjálpa henni en hún varð að vera tilbúin, vilja það sjálf.
Plan til að koma sér í gírinn
Þegar hún skrapp fram á snyrtinguna teygði ég mig í servíettu og fann penna. Nú var um að gera að grípa augnablikið, gera bara smá plan til að koma henni í gírinn.
Dagurinn í dag getur fært þér frábæra framtíð:
1. Opnaðu alla glugga þegar þú kemur heim, loftaðu almennilega út.
2. Farðu vel í gegnum svefnherbergið þitt, þar á ekkert að vera sem minnir þig á gamla drauginn.
3. Kíktu í fataskápinn, burt með allt sem þér líður ekki vel í, nú þarf að búa til rými fyrir bæði ný föt og fyrir föt af nýja vininum sem þú átt eftir að kynnast.
4. Farðu í göngutúr og ímyndaðu þér hvernig þér muni líða þegar þú verður hamingjusöm á ný.
5. Þegar þú kemur heim úr göngutúrnum, skrifaðu þá niður lýsingu á draumaprinsinum, þ.e. þeim sem þig langar til að kynnast, knúsa og kúra hjá – og skrifaðu líka niður hvað þið gerið fyrstu helgina sem þið farið saman í sumarbústað.
6. Gerðu lista yfir vini og kunningja, hvaða „vinir“ skipta þig máli, finndu þá á FB og sendu þeim skemmtileg skilaboð.
Elsku María, byrjaðu á þessu, þú getur allt sem þú vilt …… einsettu þér að njóta lífsins!
Knús …. þín vinkona
p.s. Ef þú vilt að ég hjálpi þér við tiltektina, þá er bara að senda mér sms
Síminn hringdi og ég þurfti að drífa mig heim. María kom – ég knúsaði hana bless og rétti henni servíettuna, nú var það hennar að taka næsta skref. Hvað skyldi hún gera?
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!