Ég er uppgefin. Ég er manneskja með milljón drauma og ég legg virkilega hart að mér.
Ég fer í mína 9-5 vinnu hvern virkan dag og geri mitt besta til þess að gera eins vel og ég get. Það getur verið ansi mikið álag að sinna skapandi vinnu og að fá góðar hugmyndir og útfæra þær. Það er hins vegar gaman líka og ég vil gera það vel.
Fyrir utan vinnu vil ég þó einnig nota tímann til þess að sinna mínum mörgu hugðarefnum. Fyrir utan vinnu hef ég undanfarinn mánuð eytt kvöldum og helgum í það að þýða bók eftir vinkonu mína yfir á ensku. Það er spennandi verkefni líka enda í fyrsta sinn sem ég þýði bók. Ég vil að sjálfsögðu einnig gera það vel.
Ég vil gera það vel og á sem stystum tíma, því eftir að ég klára að þýða þessa bók er ég með annað stórt verkefni sem ég vil ljúka, og raunar enn eitt verkefni í viðbót til að hefja þegar því verkefni er lokið. Ég sé því því fram á marga mánuði af þessari aukavinnu minni, sem ég gæti raunar verið að sinna fram undan vor.
Já og þekkjandi mig, hver veit nema ég verði búin að finna fleiri verkefni til að sinna þá? Þetta gætu orðið enn fleiri mánuðir en mig grunar. Heil eilífð, nánast. Heil eilífð þar sem ég legg mig alla fram 9–5, til þess eins að halda áfram að gera slíkt hið sama í frítíma mínum.
Aldrei neinn tími til að slappa af. Neibb. Því það virðist vera eitthvað sem ég kann ekki jafnvel og ég hélt. Ég er nefnilega búin að vera að setja svo ótrúlega mikla pressu á mig undanfarnan mánuð.
Ótrúlega mikla pressu um að vera ofurkona og gera þetta allt saman fullkomlega á nákvæmlega engum tíma.
Svo mikla pressu að ég nýt þess ekki einu sinni að taka mér kvöld eða helgar í pásu, því ég er með samviskubit yfir að vera ekki að gera það sem ég, að mínu eigin mati, ætti að vera að gera.
Ég er uppgefin, því í hausnum á mér var ég búin að ákveða að ég ætti að gera svo mikið að ég mætti ekki taka mér frí án þess að skamma sjálfa mig fyrir það.
Ég veit að það þurfa allir að hlaða batteríin endrum og eins en einhvern veginn fannst mér að ég ætti bara að geta gert þetta, ekkert múður, án þess að vera eitthvað að „hvíla“ mig, eina og eina kvöldstund.
Í stuttu máli þá hef ég leyft mínum eigin hugsunum að gera sjálfa mig geðveika. Það er nefnilega enginn sem segir að ég hafi ekki nægan tíma, að ég sé ekki nógu dugleg. Enginn deadline sem ég þarf að hafa áhyggjur af. Ekkert sem segir að þetta gangi einmitt ekki ótrúlega vel hjá mér. Að ég þyrfti ekki einu sinni að vera að standa í þessu, ekki nema af því að mig langar til þess.
Enginn nema ég. Ég tók áhugamálið mitt, skrifin mín, hlut sem ég hef mikla ástríðu fyrir og gerði að einhverju sem ég allt að hataði. Einfaldlega af því að ég valdi að líta á það sem kvöð. Það er hins vegar ekki kvöð. Ég gæti hætt núna strax, ef ég vildi. Það er enginn að neyða mig til neins hérna.
Ég get nefnilega valið að slaka á kröfunum sem ég set á sjálfa mig. Ég get valið að njóta þess sem ég er að gera. Ég get valið að finna gleðina í því sem ég er að sinna. Ég hef alltaf það val. Mikið slaka ég – loksins! – á við þá tilhugsun.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.