Nú er frábær helgi að baki, ekta íslenskt veður einkenndi helgina, sól, riging og rok, en hvað SVO ?
Oft þegar við vöknum upp á mánudegi eftir að hafa tekið verulega mikið út úr gleðibankanum um helgina læðist aftan að okkur einhverskonar mánudagsmórall.
Við förum að hugsa um þá aburði sem við tókum þátt í, þær samræður sem við áttum og þau atvik sem við urðum vitni að. Oftar en ekki skellum við lófanum á ennið á okkur og segjum við okkur sjálf:
„Djö…þurfti ég að segja eða gera…“.
Það sem gerist er að miðtaugakerfið okkar er í ójafnvægi, tilfinningarnar eru ráðandi, rökhugsunin er ekki til staðar og einhvernvegin virkar allt á móti okkur. Hvað getum við þá gert ?
Þú spólar ekki til baka
Lærum af mistökunum og hættum að berja okkur niður fyrir eitthvað sem gerðist í fortíðinni. Það er ekki hægt að spóla tilbaka og breyta einhverju sem er þegar búin að eiga sér stað.
Lærum að sleppa þessu sem við veltum okkur upp úr og reynum frekar að snúa reynslunni (slæm/góð) í eitthvað sem nýtist okkur í framtíðinni.
Álit annara á okkur sjálfum er eitthvað sem við fáum ekki breytt, það að hafa sérstakar áhyggjur af því hverjir voru að fylgjast með er mannskemmandi og fer illa með þig. Varstu að skemmta þér fyrir þig sjálfa/n eða einhvern annan?
Sérðu eftir því að hafa verið dónaleg/ur við einhvern og sagt eitthvað sem hefði betur verið ósagt ? Þá er best að losa það af sér og taka á stóra sínum með því að biðjast afsökunar, málið dautt.
Eru svokölluð „blackouts“ að trufla þig ? Það er lítið hægt að gera í því nema bíða, spyrja og sjá hvað kemur í ljós, ekki láta það koma niður líðan þinni því þú getur EKKERT gert í því úr þessu.
Það sem gerðist um helgina eru liðnir atburðir sem þú getur ekki breytt úr þessu. Hættu að hafa móral, nýttu þér reynsluna til þess að læra og þroskast, mundu hver þú ert og skilgreindu HVER þú vilt verða.
Lærðu af reynslunni og taktu svo skref í rétta átt.
Ragnheiður Guðfinna er fædd árið 1980. Hreinræktaður Vestmannaeyingur í húð og hár. Hún hefur í gegnum tíðina sinnt ýmsum störfum til sjávar og sveita, meðal annars tekið á því í netavinnu og humarvinnslu, sinnt fyrirsætustörfum og sölu -og markaðsmálum svo sitthvað sé nefnt en í dag starfar hún sem ráðgjafi í vinnusálfræði hjá Stress.is. Ragnheiður á tvö börn og á fyrirtaks mann sem tekur rómantíkina alvarlega.