Loksins virðist sumarið komið til okkar. Sólin hefur skinið og vermt okkur síðustu daga, litlu gulu fíflarnir eru farnir að gleðja okkur með fagurgula litnum, lúpínan er að byrja að blómstra – já, sumarið er komið.
Það var víða verið að taka til í görðum um helgina, tré voru snyrt og víða sást til vinnufólks uppi á þökum við að undirbúa þakmálingu. Það er auðséð að fólk er í tiltekt, allt gert klárt fyrir sól og sumar.
Við notum mikinn tíma til að taka til í umhverfi okkar – en munum við eftir að gefa okkur jafn mikinn tíma til að taka til innra með okkur?
Það er margt sem safnast saman í huga okkar og líkama yfir vetrarmánuðina, ýmislegt sem við viljum etv. létta á okkur með til að njóta sumarsins enn betur. Lífið færir okkur margs konar verkefni og þau koma ekki öll á silfurfati, þau koma stundum óvænt og eru misauðveld viðureignar.
Ef um samskiptavandamál er að ræða, hafðu þá í huga að það tekur amk. tvo til að deila.
Stundum getur verið gott að geta rætt málin, fengið einhvern góðan vin eða vinkonu til að hlusta. Með því að heyra sjálfur hvað maður er að fást við, segja öðrum frá, þá er oft auðveldara en annars að átta sig á hvernig er hægt að leysa mál sem áður virtust vera komin í hnút. Það er almennt betra til lengdar að leysa flækjur en að skera á hnúta.
Skrifaðu eða teiknaðu
Ef þú hefur ekki aðstöðu til að ræða málin við aðra þá er þjóðráð að skrifa niður það sem þú ert að velta fyrir þér. Ef þér finnst það erfitt, þá getur gert sama gagn að búa til einhvers konar mynd af því sem þú ert að reyna að leysa, jafnvel nokkur strik, krúsidúllur og hálfgert krot geta gert kraftaverk við „hreinsunarstörfin“. Þá er nauðsynlegt að þú sért að velta „vandamálinu“ / „verkefninu“ fyrir þér á meðan þú ert að skrifa eða búa til táknin á blað. Með þessu móti ertu komin í dálitla fjarlægð frá málinu og getur átt auðveldara með að skoða málið utanfrá.
Ef um samskiptavandamál er að ræða, hafðu þá í huga að það tekur amk. tvo til að deila.
Ekki leyfa slæma framkomu
Stundum er okkur hollt að reyna að setja okkur í spor hins aðilans, reyna að sjá hlutina út frá sjónarhóli annarra. Við eigum hins vegar ekki að leyfa öðrum að koma leiðinlega fram við okkur, það er ekki nein glóra í því. Við eigum að bera það mikla virðingu fyrir okkur sjálfum að við leyfum ekki slíkt.
Gefðu þér tíma til að vera ein með sjálfri þér smátíma í dag eða næstu daga og veltu fyrir þér hvaða pinkla þú vilta gjarnan losa þig við áður en þú axlar bakpokann og heldur út á sumarveginn, út í sumarnóttina, þessar yndislegu björtu íslensku sumarnætur sem eru engu líkar. Þú yrðir vafalítið léttari í spori.
Það er sama hvað leynist í pinklunum sem þú vilt létta á þér með, það er hægt að vinna úr málunum og ná þannig nær því að eignast þá hugarró sem er svo dýrmæt til að njóta þess að blómstra í einkalífi og starfi.
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!