Flestir kannast við það að kvíða einstaka sinnum fyrir einhverju sem þeir þurfa að takast á við. Það getur verið ósköð eðlileg tilfinning.
Ef þú kvíðir aldrei neinu þá má líka líta svo á að það sé ef til vill örlítil vísbending til þín um að þú haldir þig alltaf innan þægindahringsins góða. Það getur meira að segja vel hugsast að þú passir ofurvel uppá að halda þig alltaf á öruggu svæði, þú vilt sigla á lygnum sjó í þeim tilgangi að þú þurfir ekki að takast á við erfiðar aðstæður, aðstæður sem þú kvíðir alveg ótrúlega mikið fyrir að gætu hugsanlega komið upp.
96% af áhyggjum eru óþarfar
Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að langflestar áhyggjur fólks eru óþarfar. Í efni sínu Phoenix leiðinni að hámarksárangri styðst Brian Tracy m.a. við rannsóknir sem sýndu að um 96% af áhyggjuefnum fólks voru með öllu óþörf, aðeins 4% áhyggjuefnanna var eitthvað sem gerðist – eitthvað sem enginn gat haft nokkur áhrif á hvort heldur sem var.
Oft á tíðum er okkur hollt að hafa dálitlar áhyggjur því það gerir það að verkum að við sýnum meiri aðgætni. Sífelldar og sívaxandi áhyggjur geta hins vegar farið mjög illa með andlega líðan okkar og því er mikils um vert að við reynum að gera okkur grein fyrir því hve langt við eigum að ganga í áhyggjunum. Hvað er raunhæft að við getum haft áhrif á og afstýrt að muni gerast?
Ímyndaðar áhyggjur
Kona nokkur hafði í mörg ár haft miklar áhyggjur af því að fjölskylda sín myndi splundrast. Hún óttaðist að maðurinn sinn myndi vilja skilnað og að börnin hennar sem voru orðin fullorðin, en voru sífellt að hnýta ónotum hvort í annað, myndu alveg hætta að koma í heimsókn með barnabörnin. Hún sá fram á einmanaleika og einangrun.
Allt fyrir friðinn
Til að reyna að koma í veg fyrir slíkar hörmungar hafði þessi ágæta kona tekið upp á því að leggja sig 200% fram við það að vera þeim öllum til hæfis: maka, börnum og tengdabörnum. Ef hún hélt að eitthvert þeirra vanhagaði um eitthvað þá var hún var tilbúin að bjarga því. Hún passaði alltaf barnabörnin þegar hún var beðin um það – líka þegar hún hafði ætlað sér að hitta gamla vinkonu eða skjótast á fund í kvenfélaginu. Þegar til stóð að fjölskyldan gerði eitthvað saman þá samþykkti hún alltaf tillögur hinna umsvifalaust jafnvel þó að hana langaði frekar að eitthvað annað yrði gert. Hún var líka ávallt undirbúin undir að brydda upp á nýjum umræðuefnum til að dreifa athygli og skera á vaxandi æsing áður en mál færu úr böndunum. „Allt fyrir friðinn!“ sagði hún mér til skýringar.
Óttaðist einmanaleikann
Þessi mikli kvíði konunnar fyrir hugsanlegum einmanaleika og félagslegri einangrun í framtíðinni hafði haft það í för með sér að allt hennar líf var farið að snúast í kringum það að forða þessu kvíðvænlega sem ef til vill og hugsanlega myndi kannski gerast. Hún var hætt að njóta líðandi stundar, andleg streita óx jafnt og þétt. Hún naut þess ekki einu sinni að vera með fólkinu sem hún elskaði, var stöðugt á varðbergi, ávallt að passa uppá að halda öllum góðum því þá væru meiri líkur á því að friðurinn héldist og allir gætu átt þokkalegar stundir saman.
Brotnaði saman á endanum
Þetta kom allt í ljós dag nokkurn þegar konan veiktist snögglega og var flutt í hendingskasti á bráðamóttöku þar sem engar líkamlegar skýringar fundust fyrir vanlíðan hennar annað en það að hún væri orðin yfirspennt og langþreytt vegna mikils langvarandi kvíða og allrar þeirra taugaspennu sem honum fylgdi.
Settu það á blað
Ef hugur þinn er fullur af áhyggjum þá skaltu staldra aðeins við og spá í hvað sé raunhæft fyrir þig að vera með áhyggjur af. Prófaðu að punkta niður áhyggjurnar. Það er nú svo skrýtið að þegar þú hefur náð að yrða áhyggjuefnin þín og hefur skrifað þau niður, þá er oft á tíðum eins og þú eigir auðveldara með að greina hvað sé raunhæft að hafa áhyggjur af – og hvað ekki.
Þá er líka alltaf gott að svara eftirfarandi spurningu:
„Hvað er það versta sem gerist? – ef það sem ég hef áhyggjur af að muni gerast, gerist í raun og veru?“
Njóttu líðandi stundar, hún kemur aldrei aftur og blómstraðu bæði í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!
Með bestu kveðju
Jóna Björg Sætran, M.Ed., ACC markþjálfi og Feng Shui ráðgjafi,
www.namstaekni.is – www.blomstradu.is – www.fengshui.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!