Það er ótrúlegt að fylgjast með vinkonum og vinum sem eru svo djúpt sokkin í meðvirkni með nánum einstaklingum að allt daglegt líf fer að snúast um að NN líði vel til að ekki „sjóði uppúr“.
Á þessi lýsing við þig?
Ef einhver sem þú ert í nánu sambandi við, t.d. maki þinn, er stöðugt að þvæla sér í einhverja vitleysu, skemma bæði eigin heilsu og áður hamingjuríkt samband ykkar, hversu lengi ætlar þú að láta það viðgangast? Ertu stöðugt að kóa með? Ertu alltaf að reyna að breiða yfir sársaukann sem þetta veldur þér? Hvað varð um stór-fjölskyldu og vina boðin?
Ertu stöðugt að finna upp á nýjum afsökunum fyrir því að mæta ekki því þú veist fyrir nokkuð víst að ef að þið farið þá endar það með ósköpum, annaðhvort í sjálfu boðinu – eða þegar heim verður komið. Það síðara er eiginlega verra því ef reiðin og ofsinn eykst þá getur verið ansi stutt í að hendin fari að sveiflast og lendi alveg óvart einhvers staðar á þér. Já, alveg óvart – en ekki hvað?
Hvers vegna hefur NN þvílíkt tangarhald á þér?
Það er alltaf einhver sem verður tilbúinn að aðstoða þig. Þú getur leitað þér hjálpar. Þú getur breytt lífi þinu.
Þú átt val. Nýttu það. Það eina sem þú getur ekki gert er að breyta lífsmynstri, hegðun og hugsun NN. Ef NN ætlar sér þetta líferni og samskiptamynstur þá er það ekki á þínu valdi að breyta því, hversu heitt sem þú óskar þess.
Það er til lítils að lifa í lygi til lengdar. Slíkt dregur úr þér lífsmóð og kraft, orkan þín dofnar upp og brátt ferðu að finna að þetta líf er farið að hafa áhrif á andlega – og líkamlega heilsu þína. Hvers vegna ertu að berja höfðinu við stein?
NN lofar öllu fögru, elskar þig og aðeins þig. Vill allt fyrir þig gera. Það líður samt ekki á löngu þar til sama hringavitleysan er komin í gang á ný.
Hvaða máli skiptir eitt kvöld, já – eða ein helgi? Þetta var nú bara svo lítið, eða hvað?
Hvað er það við þennan einstakling sem þú elskar svo mikið að þú heldur áfram í sambandinu, ferð allaf heim aftur? Hvað með krakkana? Heldur þú virkilega að vegna þess að þau eru svo ung að þau skynji ekki ofbeldið, ekki bara þetta líkamlega heldur líka andlega ofbeldið. Börn eru mjög næm á allt í umhverfinu og erfiðleikar þeirra þegar þau eldast má oft tengja við heimiliserjur og ofbeldi í æsku.
Hugsaðu fimm ár fram í tímann? Hversu margir verða sólskinsdagarnir ykkar í heildina á þessum fimm árum á móti erfiðu dögunum? Ertu til í þetta? Finnst þér bara allt í lagi að bjóða börnunum þínum upp á þetta?
Viltu börnum þínum það sama þegar þau eldast?
Staldraðu við. Hugsaðu málið út af fyrir þig. Hvernig fyrirmynd ert þú börnunum þínum? Ef þú lætur stöðugt vaða yfir þig, fara illa með þig á þennan hátt sem hefur viðgengist að undanförnu, ert þú þá ekki að segja við börnin þín að þetta sé bara eðlilegt líf. Viltu að eins verði farið með þau þegar þau eldast? Myndir þú ráðleggja þeim að láta eins og ekkert sé ef eða þegar maki þeirra kemur svona fram við þau?
Leitaðu þér hjálpar, hana er víða að finna, þú þarft bara að taka fyrsta skrefið. bestu kveðjur Jóna Björg Sætran, markþjálfi, www.coach.is og coach@coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!