Hvað sástu þegar þú leist í spegilinn í morgun? Varstu ljót með bauga niður á kinnar, rauða flekki á annarri kinninni, risastóra bólu á miðri hökunni
Getur verið að þú hafir líka litið í stóra spegilinn þegar þú komst úr sturtunni? Hvernig í ósköpunum datt þér það nú í hug. Þú veist að það er algjörlega bannað. Maður gerir ekki svoleiðis.
Svo við sleppum nú öllu gamni, hvað er það sem þú sérð þegar þú lítur í spegilinn og horfist í augu við sjálfa þig?
Undir hvaða kringumstæðum gerðir þú það síðast? Varstu að farða þig, varstu að prófa hvort þú kæmist í svarta sexy kjólinn sem allar konur þurfa að eiga – eða reyndir þú að horfast í augu við þinn innri mann? Hvað sástu? Hverju varstu að horfa eftir?
Allar langar okkur til að vera sáttar og hamingjusamar, eða er það ekki? Allar elskum við að fá smá viðurkenningu á útliti okkar. Flestar okkar leggjum okkur eftir því að líta vel út. En hvað táknar það að líta vel út? Erum við þá að miða við það hvort við eigum nýjustu fatatískuna, höfum litað hárið í „heitasta“ litnum, er förðunin sem líkust því sem við sjáum í tískublöðunum og ekki má gleyma flottu fylgihlutunum sem setja punktinn yfir i-ið. Allt þarf að passa. Hvað með líkamsræktina? Er hún stunduð á vinsælustu líkamsræktarstöðunum?
Hvað er það sem skiptir í raun máli?
Ef þú ert stöðugt að eltast við einhver viðmið sem þú getur ekki veitt þér, hvernig líður þér þá? Líklega ertu svekkt og leið, þú átt ekki sjénsinn í að vera eins og fyrirsætur glanstímaritanna.
Hver er þín innri fegurð? Hve sönn ertu sjálfri þér? Hvernig ræktar þú þinn innri mann og hvernig líður þér í þínu eigin skinni – án samanburðar við aðra? Hvers vegna erum við alltaf með þessi viðmið, reynum að vera eins og einhverjar aðrar en við erum í raun? Er nokkuð vit í þessu?
Þú býrð yfir einstökum eiginleikum og einstökum hæfileikum. Þú býrð yfir einhverju sem enginn annar hefur. Hvers vegna ekki að kalla þessa þætti fram í dagsljósið, nota þá til að sjarmera aðra upp úr skónum þegar við viljum það, leyfa öðrum að njóta þeirra með okkur.
Þú getur aldrei orðið alveg eins og einhver önnur. Þó svo að þér tækist með ótal skurðaðgerðum að líkast annarri konu að allmiklu leyti í útliti, þá er innrætið og hugsunin þín eigin. Eftirherman yrði því aldrei fullkomin. Væri það heldur nokkurs virði? Hvað veist þú í raun um það hvernig fyrirmyndinni þinni, átrúnaðar goðinu þínu, líður. Það sem blasir við hið ytra þarf ekki að vera hið raunsanna.
Njóttu þess að vera þú sjálf
Njóttu þess að líkami þinn er eins og hann er. Njóttu þess að hugsanir þínar geta borið þig langan veg og að þú getur séð tilveru þína í hnotskurn á kvikmyndatjaldi hugar þíns. Þegar þú leyfir þér það, leyfðu þér þá að gagnrýna sjálfa þig og gjörðir þína á sem hlutlausastan hátt. Sem nær því hlutlaus áhorfandi getur þú leyft þér að gramsa í myndbrotunum, sönnunargögnunum og setja síðan saman þinn eigin persónulega óskalista yfir hverju þig langar til að breyta í eigin fari og útliti.
- Hvað viltu auka?
- Hvað viltu gera smá öðruvísi?
- Hvers vegna viltu þessar breytingar?
Gefðu þér smá tíma í þetta ferli. Hver veit nema þér líði betur á eftir.
Með bestu kveðjum Jóna Björg Sætran, menntunarfræðingur og markþjálfi coach@coach.isJóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!