Dreymir þig allar liðlangar nætur? Eða dreymir þig einstaka sinnum draum sem er skýrari og sterkari en hinir? Grunar þig að það sé verið að segja þér eitthvað í gegnum drauma þína, leiða þig áfram?
Ég er ein af þeim sem dreymir á hverri einustu nóttu og man yfirleitt eitthvað af þeim á morgnana, eða tekst að rifja þá upp síðar yfir daginn.
Stundum dreymir mig drauma sem eru svo sterkir að ég losna ekki við þá tilfinningu að þeim sé ætlað að segja mér eitthvað. Undanfarin ár hef ég því verið duglegri við að leggja mig fram við að skilja það sem fram í þeim fer.
Það hefur hjálpað mér mikið að vera í hugleiðsluhóp hjá vinkonu minni, Sigrúnu Gunnarsdóttur, heilara og miðli, en hún skrifaði einmitt bókina Táknmál drauma sem kom út í byrjun árs þar sem hún fer yfir hvað draumar eru og hvernig hægt sé að skilja þá betur.
Samkvæmt henni eru draumar ávallt leiðsögn að handan en hvern draum má túlka á tvo vegu, annars vegar sem veraldlegan draum sem útskýrir hvað er að gerast í hinu daglega lífi okkar og hins vegar andlega leiðsögn sem sýnir okkur á hvaða leið við erum.
TÁKNMÁL ÚR MYNDUM
Ég veit að draumarnir okkar virka oft eins og argasta bull en þegar ég fór að kynna mér drauma betur þá uppgötvaði ég að það er ekki svo. Eins og kemur fram í Táknmál drauma þá eru draumar nefnilega einmitt það, táknmál sem byggt er upp á myndmáli.
Í öllum draumum sem okkur dreymir er að finna svokölluð draumatákn en það geta verið tölur, litir, manneskjur eða hlutir og atburðir, raunar allt sem stendur upp úr hverjum draumi. Eftir því sem ég legg mig betur fram við það að lesa í og túlka draumana mína á ég á auðveldara með að pikka þessi draumatákn út og skilja merkingu þeirra.
FLUG OG BARNEIGNIR
Dæmi um draumatákn sem mig dreymir og ég veit hvað merkir eru flug og barneignir. Nú hef ég oft flogið erlendis en ég veit samt að það að dreyma að ég sé á leiðinni í flug þýðir ekkert endilega að ég sé að fara til útlanda. Ég hef hins vegar aldrei átt barn né verið ólétt en hef engu að síður margoft dreymt að ég sé barnshafandi.
Bæði þessi draumatákn, fyrir mér, þýða að það séu einhverjar breytingar framundan í mínu lífi. Það að dreyma að barn sé á leiðinni er t.d. augljós ábending um að eitthvað nýtt sé að koma inn í líf manns.
Þó svo að það geti verið barn gæti það einnig allt eins verið nýtt starf eða nýtt heimili, svo dæmi séu tekin.
Það sem gerir okkur erfiðara fyrir við að túlka drauma er að draumatáknin hafa ekkert endilega sömu merkingu fyrir hvert og eitt okkar.
Það hvers konar draumatákn eru notuð til að senda okkur skilaboð fer eftir hverju og einu okkar, einmitt vegna þess að við búum okkar yfir okkar eigin upplifunum. Allt það sem við höfum upplifað og geymum í undirvitund okkar er nýtt til þess að koma til okkar skilaboðum.
Það þýðir ekki að það sé ómögulegt að skilja drauma okkar, aðeins að við þurfum að gefa okkur tíma til þess að læra á okkar eigin draumatákn. Draumar eru skrifaðir á ákveðnu táknmáli, táknmáli sem byggist upp á myndmáli, og við þurfum að rýna í þessi tákn og merkingu þeirra til að skilja drauminn.
Ef þú hefur áhuga á því að læra meira um drauma þína mæli ég með bókinni Draumar: Svör næturinnar við spurningum morgundagsins þar sem farið er yfir lífsspeki Edgar Cayce, einn þekktasta og virtasta sjáanda sögunnar. Ég mæli einnig með Táknmál drauma eftir Sigrúnu Gunnars. Það er svo margt spennandi og ekki síður hjálplegt við að skilja drauma sína betur.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.