Börnin mín eru án efa það yndislegasta og besta sem hefur komið fyrir mig en oft vil ég gleyma sjálfri mér í uppeldinu, gleymi bara að sinna líkama og sál.
Núna er ég búin að vera grasekkja í einn og hálfan mánuð og finn hvað það er gott að taka smá stund út af fyrir mig og sinna sjálfri mér, þetta er eitthvað sem við mæður viljum oft gleyma vegna þess að það er svo ofboðslega mikið að gera hjá okkur dags daglega.
Þegar heim er komið eftir skóla eða vinnu og búið að sinna heimanámi, kvöldmat, baðtíma, þvotti, ganga frá og eitthvað meira til erum við jafnvel örmagna og skellum okkur í sófann eða höldum áfram að sinna einhverju.
Ég hef haft það fyrir sið þegar ég er ein og maðurinn á sjónum, að fara mjög snemma að sofa þar sem að ég veit að flestir aðrir á heimilinu munu vakna mjög snemma.
Að taka frá tíma fyrir sjálfa sig og sinna sjálfri sér þarf ekki að kosta neitt en getur líka alveg sprengt budduna, gerðu það sem hentar þér og splæstu endilega í þig ef þig langar.
Hér eru nokkrar hugmyndir um það sem þú getur gert sem endurnærir þig.
- Farðu út að labba, gríptu jafnvel vinkonu með þér. Það er fátt jafn gott eins og að hitta góða vinkonu og getað spjallað um daginn og veginn og fá góða hreyfingu í leiðinni.
- Farðu í ræktina, þú hreinlega finnur daginn líða úr þér þegar þú rífur í járnið!
- Kíktu í sund-barnlaus, það bætir líkama og sál og þú ferð endurnærð að sofa eftir heitt og gott vatnið.
- Talaðu við vinkonurnar og biddu þær að kíkja með þér á kaffihús og eyðið gæðatíma saman.
- Farðu í smá dekur á snyrtistofu, það er fátt betra en að líta vel út eftir ferð á snyrtistofuna!
- Klipping og litun getur bjargað árinu! Ef klippingin er góð og liturinn æði þá líður þér eins og þú getir sigrað heiminn!
- Nudd, já nudd er oft besta meðal sem til er gegn steitu.
- Búðu til heimaspa: Farðu í heitt bað eða sturtu, settu á þið andlitsmaska, naglalakkaðu þig, berðu á þig góð krem og eitt hvítvínsglas sakar ekki með! Meira um það hér.
- Skipuleggðu vinkonuferð: Farið saman í sumarbústað, óvissuferð, eða safnið fyrir ferð til útlanda, dagurinn mun alltaf renna upp.
Ef þú ert í sambandi þá er nauðsynlegt já NAUÐSYNLEGT að rækta það líka Giuliana Rancic segir að þau Bill setji hjónabandið ALLTAF í fyrsta sæti, þannig viðhaldi þau neistanum. Hér eru nokkrar hugmyndir að gæðastundum með makanum:
- Skipuleggið “deitkvöld” heima, þegar molarnir eru sofnaðir setjið þá góða mynd í tækið, opnið góða vínflösku og hafið til eitthvað meðlæti, kannski að spennandi hlutir gerist seinna um kvöldið?
- Farið saman í göngutúr og fáið barnapíuna heim til að passa á meðan, ræðið málin, hvað gerðuð þið í dag, liggur ykkur eitthvað á hjarta og svo framvegis.
- Farið saman í paranudd, hyggeligt og kósý!
- Pantið ykkur hótel, farið í burtu í eina nótt, skellið ykkur út að borða og eigið síðan gæðastund saman á hótelherberginu.
- Að fara út að borða, í bíó eða leikhús er alltaf klassískt.
- Safnið fyrir helgarferð án barnanna, að komast frá landinu og í aðra menningu getur kveikt á ýmsum neistum hjá ykkur ég lofa að þið komið hress sem fress til baka!
Þetta eru bara nokkur atriði sem mér dettur í hug og svo margt meira sem hægt er að gera með og án makans, mundu bara að gleyma ekki sjálfri þér. Þú átt líka skilið að fá smá frí og hugsa um þig, þú verður betri mamma og maki fyrir vikið.
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig