Hugleiðsla er hugtak sem mikið er fjallað um þessa dagana, enda ærin ástæða til. Hugleiðsla er einfaldlega ein af undirstöðum þess sem gerir okkur að hamingjusömum einstaklingum, enda er hún oft og iðulega nefnd á listum yfir það sem getur látið okkur líða betur á sálinni.
Það býr engin dulúð á bak við hugleiðslu, því vísindin hafa sannað hversu gott hún gerir okkur. Eins og kemur fram á eftirfarandi mynd getur hugleiðsla:
- minnkað sársauka og eflt ónæmiskerfið
- minnkað þunglyndi, kvíða, reiði og ringlun
- örvað blóðflæði og róað öran hjartslátt
- aukið ró, frið, og jafnvægi
- aðstoðað við að sporna við hjartarsjúkdómum
- aðstoðað við að stjórna hugsunum
- aukið orku
- minnkað stress
Það eru margar leiðir til þess að hugleiða, allt frá því að einbeita sér að andardrættinum, kveikja á kerti og fylgjast með loganum, eða endurtaka ákveðinn frasa (eða möntru eins og það er kallað), annað hvort með tónlist undir eða í kyrrð. Það fer eftir hverjum og einum hvaða aðferð hentar best en hugleiðslu er hægt að stunda einn eða í hóp.
Fyrir þau sem eru óvön og jafnvel óörugg er góð hugmynd að skrá sig á hugleiðslunámskeið og eiga þar kyrrðarstund. Það er þó ekkert sem segir að þú getir ekki æft þig heima sjálf/ur.
Hugleiðsla er nefnilega ekki flókin, þó hún virðist kannski vera það í byrjun. Í sinni einföldustu mynd snýst hugleiðsla um það að vera meðvitaður um hugsanir okkar, að leyfa hugsununum að flæða, án þess að við verðum pirruð eða finnast við vera ómöguleg fyrir það að geta ekki kyrrt hugann.
Hugleiðsla snýst alls ekki um að hætta að hugsa – það myndi reynast okkur ómögulegt. En við getum tekið eftir hugsunum þegar þær koma, viðurkennt þær, og leyft þeim svo að halda sína leið. Að hugleiða er einfaldlega að leiða hugann, eins og nafnið gefur til kynna.
Að temja hugann sinn
Ein af bestu útskýringunum á hugleiðslu sem ég hef séð er að finna í eftirfarandi myndbandi. Þar kemur einmitt fram að hugur okkar er virkur en að hugleiðsla gerir okkur kleift að temja hann með því að gefa honum hlutverk. Við getum til að mynda gefið huganum það verkefni að fylgjast með andardrætttinum, fara með möntru, fylgjast með kertaloga og svo framvegis.
Það er einmitt það sem gerir okkur það mögulegt að lifa þann tíma algerlega í þessu eftirsótta „nú-i“. Þar með gerum við okkur grein fyrir því að við erum aldrei neins staðar nema akkúrat hér, hér og nú, því ekki getum við farið aftur til fortíðar, né til framtíðar. Að eyða tíma okkar og hugsunum þar er því frekar tilgangslaust.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=GLjelIPg3ys [/youtube]
Þú getur ekki breytt fortíðinni, sama hvernig þú reynir, svo þú getur alveg eins hætt að skamma sjálfa/n þig fyrir það sem þú gerðir þá, eða óska þess að hlutirnir hefðu verið öðruvísi. Framtíðin er óráðin. Það þýðir að þó að þú gerir að sjálfsögðu plön, þá geta hlutirnir alltaf breyst. Því er gott að vera opin/n fyrir því sem kemur, án fyrirfram ákveðinna væntinga.
Framtíðin kemur, hvort sem þú hefur áhyggjur af henni eða ekki – áhyggjur eru því algjörlega tilgangslausar, og gera sjaldnast nokkuð einasta gagn.
Það eina sem þú getur stjórnað er núið, og það er það sem „mindfulness“, að vera meðvitaður um andartakið, snýst um.
Þú átt val, og þú getur alveg eins ákveðið að njóta stundarinnar, og vera þar með hamingjusöm/samur, núna strax í dag.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.